145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum sem er eitt af forgangsmálum þingflokks Samfylkingarinnar við upphaf 145. þings. Við hv. flutningsmaður málsins, Árni Páll Árnason, áttum hér orðaskipti fyrir hádegi og ég hef hugsað mér að nýta tíma minn til að staldra við þann þátt sem við ræddum í þeim orðaskiptum. Í almennum orðum vil ég segja um þessa tillögu að ég held að hún sé gagnleg og skynsamleg og ég held að það sé mikilvægt að leita lausna í þeirri stöðu sem íslenskt samfélag er í en mig langar að staldra sérstaklega við 6. punkt sem lýtur að endurmati á byggingarreglugerð.

Í samskiptum nokkurra þingmanna sem sitja í umhverfis- og samgöngunefnd og fleiri þingmanna við MND-félagið og Öryrkjabandalagið vegna aðgengismála kom eftirfarandi fram í tölvupósti frá formanni MND-félagsins í umræðu um byggingarreglugerð og aðgengi, með leyfi forseta:

„Að gefa afslátt af aðgengi bygginga nú er ekkert annað en að pissa í skóinn sinn. Hugsið ykkur örfá ár fram í tímann þegar aldraðir og veikir verða mun fjölmennari en nú, á þá að byggja hjúkrunarheimili með hundruðum plássa fyrir 10 millur pr. pláss og að auki að reka þessar stofnanir fyrir milljarða á ári? Er ekki betra að eiga aðgengilegar íbúðir og þjónusta þetta fólk heima frekar en á stofnunum? Afsláttur í dag er hörmung í náinni framtíð.“

Öryrkjabandalagið og félög innan þess hafa háð langa og stranga baráttu fyrir bættu aðgengi að almannarými, opinberu rými og opinberum byggingum en ekki síður húsnæði um langt árabil. Þessi barátta er ekki einangruð við Ísland, hún er hluti af baráttu fatlaðra um allan heim og er hluti af þeirri kröfu að hindrunum sé rutt úr vegi þannig að unnt sé að taka fullan þátt í samfélaginu og öllum hlutum þess.

Það hefur valdið mér nokkrum áhyggjum og umhugsun að þurfa að eiga í orðaskiptum við mína annars góðu félaga í Samfylkingunni um svo sjálfsagt jafnaðarmál. Það var þegar á síðasta kjörtímabili þegar sú sem hér stendur undirritaði nýja byggingarreglugerð sem var unnin í fullu samráði við Öryrkjabandalag Íslands þar sem gerðar voru miklar kröfur til aðgengis í íbúðarhúsnæði og ekki bara fyrir þá, þær eða þau sem þar búa heldur til að það fólk geti síðan boðið til sín foreldrum, systkinum, ættingjum sem búa við hreyfihömlun og ekki síður til að viðkomandi geti elst í íbúðinni sinni, að ég tali nú ekki um að við sem hér erum og stöndum upp á endann í okkar ræðuhöldum munum að það er stundum mjög stutt á milli þess að búa við líkamlega heilsu og missa hana.

Byggingarreglugerðin er gríðarlega stórt og mikið plagg og þar er alveg örugglega ýmislegt sem má færa til betri vegar. Vegna orða hv. þm. Árna Páls Árnasonar vil ég þó láta þess getið að að þeirri vinnu kom alveg gríðarlegur fjöldi fólks vegna þess að það þarf að kalla eftir mjög fjölþættri sérfræðiþekkingu þegar byggingarreglugerð er annars vegar. Við erum að tala um brunavarnir, hljóðvist, einangrun, aðgengismál o.s.frv. Af þeim sökum var sérstakur hópur settur í það að skrifa hvern kafla reglugerðarinnar á sínum tíma. Þetta verklag var viðhaft vegna þess að sú sem hér stendur var afar meðvituð um að það eru sterkar raddir sem munu ávallt halda því fram að það sé mikilvægt að geta byggt ódýrt sem og að geta síðan hagnast á ódýrum húsbyggingum og selt þær á háu verði. Það var vandamálið sem við horfðumst í augu við og sáum framan í.

Ágætur maður sem hefur haft samband við mig, maður sem vann hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík, Skipulagsstofnun, umhverfisráðuneytinu og víðar, hefur bent á að sannarlega megi laga einhver atriði í byggingarreglugerðinni og draga úr kostnaði en þá erum við að tala um tiltölulega lítinn hluta af því sem verktakarnir hafa reiknað sér ofan á framkvæmdakostnaðinn til að hagnast á framkvæmdunum.

Flestar nýjungarnar í reglugerðinni voru hugsaðar sem viðbrögð við tilhneigingu verktaka til að byggja ódýrt og selja dýrt. Þetta kom mjög skýrt fram í efnahagsbólunni í aðdraganda hrunsins, þá var hægt að selja nánast hvað sem var ef það var þak og fjórir veggir. Höfum við ekki séð nógu mörg dæmi þess að gæðin hafi verið fyrir borð borin? Við höfum séð myglu, það að ekki er notað fullnægjandi byggingarefni o.s.frv. Um leið og reglugerðin kom fram stigu fram menn frá Samtökum iðnaðarins og fleiri hagsmunaaðilar og héldu því fram út frá einu reikningsdæmi að byggingarkostnaður á Íslandi hækkaði um 20% við undirritun byggingarreglugerðar. Hvað gerist þá? Öryrkjabandalagið talaði allan tímann mjög skýrt um að ekki mætti gefa afslátt af þessum kröfum. Við í umhverfisráðuneytinu og Mannvirkjastofnun fórum yfir öll rök og skoðuðum sérstaklega þá þætti sem lutu að einangrun og áttu að sumu leyti rætur í samfélögum þar sem jarðefnaeldsneyti er notað til að hita íbúðarhúsnæði og komumst að raun um að vel væri hægt að slaka á þeim kröfum sem lúta sérstaklega að einangrun þó að það mætti auðvitað velta fyrir sér að þar ætluðum við að vera með ráðstafanir til næstu 50 ára eða svo, þ.e. að ef við erum með nýtt íbúðarhúsnæði þarf það að geta staðið af sér næstu 50 ár. Megum við þá gefa afslátt af þeirri hugmynd að í framtíðinni, m.a.s. í náinni framtíð, þurfum við öll að fara varlega með orku, líka við sem búum við þau forréttindi að njóta endurnýjanlegra orkugjafa í miklum mæli? En þetta var gert.

Í Mannvirkjastofnun voru menn sammála um að vegna þeirra breytinga sem við gerðum á reglugerðinni og lágu fyrir við lok kjörtímabilsins 2013 værum við hugsanlega að tala um 2% kostnaðarhækkun á húsnæði almennt þegar hönnuðir, arkitektar og aðrir þeir sem eru flinkastir í því að teikna upp veggi, rými o.s.frv. væru búnir með sitt.

Ég tek undir það sem hv. þm. Hörður Ríkharðsson sagði áðan þegar við vorum að tala um mjólk, af því að það á alltaf við þó að hér sé ekki verið að tala um mjólk og enn þá síður um bjór, að það er mikilvægt að staðreyndir liggi til grundvallar því sem við höldum fram. Það er mikilvægt að halda uppi rannsóknum og djúpri umræðu í öllu sem sagt er. Þess vegna hefur það valdið mér vonbrigðum að mörg sveitarfélög og núna þingflokkur Samfylkingarinnar skuli taka undir þessi sjónarmið. Ég vonaðist til þess í orðaskiptum mínum við hv. þm. Árna Pál Árnason að þetta snerist um smáatriði, einhver atriði sem væru minni í sniðum og kannski meira um það að skipta rými eða vera ekki svo stífur í því að gangur þyrfti að vera hér, herbergi hér, eldhús hér o.s.frv., en því miður kom það fram í andsvörum við hv. þingmann að hann taldi rétt að vega og meta hagsmuni þeirra sem þurfa á auknu aðgengi að halda á móti almannahagsmunum, eins og hann orðaði það. Það olli mér vonbrigðum en ég tel, virðulegi forseti, mikilvægt að halda þessum sjónarmiðum (Forseti hringir.) til haga í þessari umræðu.