145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:20]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og að við færum aftur í smáumræðu um byggingarreglugerðina eins og við gerðum. Það er rétt að það mun hafa verið í sérstakri umræðu sem sá sem hér stendur bryddaði upp á því umræðuefni og hjólaði dálítið bratt í það eins og ég geri nú og hef minn hátt á við það. Mér þykir vænt um að heyra þetta svar frá hæstv. fyrrverandi ráðherra um einangrunina vegna þess að þarna var gott dæmi um það þar sem var gengið allt of langt.

Auðvitað getur það komið illa niður í umræðunni um sjálfsagða þætti sem við viljum hafa og breyta, þ.e. um aðgengi fatlaðra og bara fullorðins fólks, hreyfihamlaðra, það þurfa ekki að vera fatlaðir. Án þess að ég ætli að fara eitthvað að gjaldfella það eða tala um það segi ég fyrir mitt leyti að mér finnst — ég tek skýrt fram að ég var ekki búinn að búa mig undir eða rifja þetta upp en ég hef oft tekið dæmi í ræðustól um íbúðir sem maður kemur inn í úti í Skandinavíu, litlar og nettar íbúðir, hugsaðar sem fyrstu íbúðir fyrir ungt par að byrja eða þess vegna einstaklinga. Þær vantar tilfinnanlega inn á markaðinn hér. Mínar upplýsingar frá arkitektum og öðrum hönnuðum eru þær að núna sé þar í byggingarreglugerð ýmislegt þar sem við gengum lengra en nágrannaþjóðir okkar sem gerir það að verkum að það er erfitt að byggja svo litlar íbúðir. Hvort það voru einhver ákvæði um geymslur inni í íbúðinni eða hvað það var man ég ekki nákvæmlega en þetta vildi ég segja vegna þess að þarna held ég að of langt hafi verið gengið.

En ég skal líka viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér það síðustu mánuði eða síðasta ár hvaða breytingar hafa verið gerðar til baka í því efni vegna þess að reynslan sýnir okkur oft að það er hægt að breyta hlutunum þegar komið er í praktíkina. Þegar hönnuðir og þeir sem vinna á markaðnum eru ekki hafðir með, (Forseti hringir.) heldur eingöngu embættismenn, er stundum gengið of langt.