145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar frá þingflokki jafnaðarmanna á Alþingi sem heitir hvorki meira né minna en bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þarna eru stór, mikil og metnaðarfull áform sett fram. Tillagan er annað aðalmál, ef svo má að orði komast, þingflokks jafnaðarmanna á Alþingi við upphaf þings. Hitt er um 300 þús. kr. lágmarkslaunin, eins og við vitum, sem áttu að taka gildi frá og með 1. maí, þ.e. sambærilegt og aðilar á vinnumarkaðnum sömdu um, en ríkisstjórn ætlar að svindla á öldruðum og öryrkjum og hlunnfara þá um þá mánuði sem líða á þessu ári.

Þetta er sem sagt tillaga númer tvö og er hún á þskj. 15, 15. mál. Hér er listað upp í níu liðum það sem við viljum að sé sérstaklega skoðað eins og tillagan segir til um, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að bregðast eins hratt og kostur er við því alvarlega ástandi sem komið er upp á húsnæðismarkaði þar sem húsnæðisöryggi fólks er ekki tryggt.“

Eiginlega á þetta að stærstum hluta til við um höfuðborgarsvæðið en ég vil líka halda því til haga að þetta á við á mörgum stöðum úti á landi líka. Sem betur fer eru nokkur svæði þar sem enn vantar húsnæði í og þarf að bregðast við þannig að ég segi fyrir mitt leyti út af andsvari áðan að þessi tillaga tekur tillit til þarfa á höfuðborgarsvæðinu og eins á landsbyggðinni.

Ég hef tvisvar hlustað á borgarstjórann í Reykjavík, Dag B. Eggertsson, útskýra stefnu meiri hlutans í Reykjavíkurborg í húsnæðismálum og mér þykir ánægjulegt að geta sagt að ég er mjög ánægður með þá stefnu sem þar kemur fram. Hún er mjög metnaðarfull og vonandi tekst að hrinda henni í framkvæmd. Sumt er komið í framkvæmd, annað er eftir, en þar eru sett fram mjög metnaðarfull áform. Þau eru hins vegar háð því að ríkisvaldið komi að málum eins og við listum upp í nokkrum greinum í þessari þingsályktunartillögu, t.d. veiti leigufélögum stofnstyrki, skaffi ódýrari lóðir, lækki lóðaverð, og eins getum við alveg hugsað okkur að ríkið sem á lóðir víða á landinu láti þær af hendi til félaga sem vilja byggja ódýrari íbúðir til sölu eða til leigu án þess að vera með einhver svakaleg markaðshyggjuáform en auðvitað eðlilega ávöxtun á sitt fé. Eins og maður segir stundum, og ég held að það hafi verið rakið til Jóhannesar heitins í Bónus, er mjög mikill munur á gróða og græðgi.

Það sem mér finnst allra mest spennandi við áform Reykjavíkurborgar eru þau áform þar sem verið er að skipuleggja byggingarsvæði þar sem byggingarverktakar geta byggt litlar íbúðir, 50 fermetra íbúðir, 100 fermetra íbúðir eða eitthvað þar á milli. Þetta er sú íbúðarstærð sem vantar mest á markaðinn. Ungt fólk sem er að koma úr námi, fjölskyldan ekki farin að stækka með börnum, af hverju á það fólk ekki bara að geta leigt sér lítið og ódýrt húsnæði eins og kollegar þeirra sem fara til Skandinavíu gera, leigja þar litlar og nettar íbúðir hjá húsnæðissamvinnufélögum? Það gerir það auðvitað að verkum að byggingarkostnaður verður miklu lægri og þar af leiðandi verður miklu auðveldara að kaupa ef menn fara út í það. Það munar miklu á því ef við tökum dæmi af 50 fermetra íbúð og segjum að byggingarkostnaður sé 300 þús. kr. á fermetra í dag. Sennilega er hann aðeins hærri, 5–10% hærri, kannski er hann kominn upp í 320 þús. kr. en ég leyfi mér að vinna út frá 300 þús. kr. á fermetra. Þá kostar 50 fermetra íbúð í byggingu 15 millj. kr. Ef fólk ætlar að kaupa hana þarf, miðað við þessa 20%-reglu, ekki að reiða fram „nema“ 3 millj. kr. Gerum okkur grein fyrir því að viðkomandi þurfa að hafa töluvert miklar launatekjur til að eiga 3 millj. kr. í útborgun en í þessari tillögu er líka fjallað um viðbótarlán til að kljúfa það. Hér er enn fremur talað um húsnæðissparnaðarreikninga sem ég held að sé mjög mikilvægt að efla og taka upp.

En aftur að stærðinni, ef byggðar væru blokkir eins og áform Reykjavíkurborgar eru um þar sem mest væri um 100 fermetra íbúðir og barn fæddist í fjölskyldunni gætu menn fært sig um íbúð en áfram haldið þessu lága verði. Auðvitað verður leiguverðið reiknað út frá byggingarkostnaði og eðlilegri arðsemi en það er dálítið mikill munur á því eða hvort það er verið að leigja allt að 150 fermetra íbúð sem samkvæmt sömu reikniformúlu mundi kosta 45 millj. kr. Þetta er bara gundvallaratriði og það er þetta sem mér finnst svo spennandi í áformum meiri hluta Reykjavíkurborgar um að byggja núna. Þá ítreka ég að ég vona að Reykjavíkurborg geti haldið þessu prógrammi sínu til streitu og ég segi það vegna þess að ég trúi því og treysti og vil vona að ríkisvaldið komi fram með sína tillögu sem geri það að verkum að þetta verði auðveldara. Þótt ég tali um Reykjavíkurborg get ég kóperað þetta yfir á fjöldamarga staði á landsbyggðinni. Þar er það líka vandamál að mjög gömul hús geta verið til leigu og líka allt of stór sem er dýrara að kynda o.s.frv. Ef við gerum byggingaraðilum kleift að byggja minni íbúðir og hafa fjölbreyttara val fyrir kaupendur eða leigjendur mun það strax virka. Þetta er brýnasta verkefnið að mínu mati í húsnæðismálum alveg sama hvar er á landinu.

Hér í þessari þingsályktunartillögu er líka fjallað um vaxtabætur og húsnæðisbætur sem við teljum að þurfi að auka og efla. Ég ætla að koma sérstaklega að því sem hér er sagt um bundna húsnæðissparnaðarreikninga sem veita skattafslátt til kaupa á fyrstu íbúð eða búseturétti. Virðulegur forseti sem nú situr í ræðustól þekkir ábyggilega ekki gömlu sparimerkin frá gamalli tíð. Ég þekki þau, tek það sem dæmi um að ég er svolítið eldri en sitjandi hæstv. forseti, en sá sem var forseti áður en skipt var áðan þekkti örugglega sparimerkin. Ég byrjaði nefnilega tiltölulega snemma að vinna, ungur maður, þá voru sem betur fer ekki neinar skorður á það hvenær menn máttu byrja að vinna, og ég man eftir því þegar maður opnaði launaumslagið sem þá var með peningum í, bæði seðlum og klinki, að þar ofan í voru líka sparimerkin sem maður límdi samviskusamlega inn í bók, lagði þannig fyrir og fékk svo að taka út þegar maður keypti sína fyrstu íbúð. Þó að þetta verði ekki gert með sparimerkjum eða frímerkjum heldur með bankareikningum eigum við að taka þetta upp og ég hika ekki við að halda því fram að við eigum að koma þannig til móts við þá sem vilja leggja fyrir og spara, vegna þess að það er alltaf best að leggja inn á bundna húsnæðisreikninga, að þegar peningarnir eru teknir út til kaupa á fyrstu íbúð á það að vera algjörlega skattfrjálst. Þetta er ódýrasta leiðin fyrir ríkið til að koma til móts við ungt fólk og hvetur til sparnaðar, hvetur fólk til að eyða ekki öllu sem aflað er. Það getur verið gott að geyma en þarf þá að bera ríkulegan ávöxt og gera það að verkum að fólk getur lagt það fé fram þegar það kaupir.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég að þessi áform séu góð. Þau má færa út á aðra staði á landinu og ég nefni nýlegar fréttir sem hafa verið í Kastljósi og annars staðar, viðtöl við ungt fólk sem býr við það óöryggi að vera í leiguhúsnæði og leigan hækkar og hækkar og það gefst upp á leigunni og þarf að fara út.

Ég ætla bara að nefna eitt atriði. Hugsið ykkur það sem gerist með börn þessara fjölskyldna sem eru kannski komin í einhver hverfi, inn í leikskóla og/eða grunnskóla og allt í einu þurfa menn að færa sig til, flytja vegna þess að þeir hafa ekki efni á leigunni, reyna kannski að komast í eitthvert annað hverfi og börnin þurfa að venjast því og nýjum skóla, nýjum félögum o.s.frv. Þetta er ótrúlegt óréttlæti sem ríkisvaldið vinnur gegn í öllum siðmenntuðum þjóðfélögum og þeim þjóðfélögum sem við berum okkur helst saman við og eru með öflugt húsnæðiskerfi, húsnæðissamvinnufélög eða hvað það heitir, kannski kaupleigufélög, sem stendur ungu fólki (Forseti hringir.) til boða, til leigu fyrir þá sem geta ekki eða vilja ekki einhverra hluta vegna kaupa sér íbúð.

Ég el þá von í brjósti að við á Alþingi einhendum okkur í það fyrir áramót að ná víðtækri sátt meðal allra flokka um þessar hugmyndir vegna þess að ég tel það hægt í þessu brýna hagsmunamáli.