145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[15:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér ágætt mál, tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Það er þingflokkur Samfylkingarinnar með formann hennar í fararbroddi, hv. þm. Árna Pál Árnason, sem leggur þetta mál fram. Það er mjög gott að fá hér umræðu um húsnæðismálin sem brenna á landsmönnum og hafa gert lengi; væntingar búnar að vera uppi miðað við hvernig húsnæðismálaráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir, hefur talað, um að eitthvað væri að fara að gerast í þeim efnum. Það veldur vonbrigðum hve lítið hefur komið fram í þessum málaflokki.

Í fjárlagafrumvarpinu er talað um stofnframlög og stuðning við leigumarkaðinn. Þar er einungis talað um 400 félagslegar íbúðir en vitað er að þörfin er a.m.k. helmingi meiri. Gert er ráð fyrir 2,6 milljörðum til húsnæðismála á næstu þremur árum. Það eru ekki háar fjárhæðir í þessu heildarsamhengi og það er ekkert fé í almenna leigumarkaðinn en gert ráð fyrir minni skattbyrði leigutekna án þess að nokkuð sé vitað hvernig það muni skila sér til leigjenda. Í fjárlagafrumvarpinu er enginn stuðningur við byggingu íbúða á landsbyggðinni þar sem víða er húsnæðisskortur; atvinnulífið hefur tekið við sér en einstaklingar og sveitarfélög hafa ekki treyst sér til nýframkvæmda.

Eins og ég nefndi hér áðan, í andsvari við hv. þm. Árna Pál Árnason, er eignin verðfelld um 20–30% um leið og fasteignamatið liggur fyrir og þess vegna tel ég mjög brýnt í öllu þessu samhengi að styrkja íbúðabyggingar þar sem markaðslegar forsendur eru ekki fyrir hendi í líkingu við það sem gerist hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég tek undir það sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu að tryggja þurfi leigjendum sambærilegan stuðning og veittur er þeim sem búa í eigin húsnæði með vaxtabótum.

Ég vil í þessari umræðu horfa til landsbyggðarinnar og til þeirra aðstæðna sem fólk úti á landi býr við varðandi húsnæðismálin. Það er nú þannig að fólk sem hafði hug á að búa úti á landi hefur farið þaðan vegna húsnæðisskorts. Það fólk sem hefur haft áhuga á að kaupa eldra húsnæði á þessum minni stöðum úti um land hefur haft lítið aðgengi að fjármagni. Þeir einkabankar sem við höfum hér hafa ekki treyst sér til að taka veð í húsnæði utan svokallaðra markaðssvæða og það sama má segja um ríkisbankann okkar, Landsbankann, þjóðarbankann í eigu ríkisins; hann hefur heldur ekki viljað veðsetja á fjölda staða á landsbyggðinni. Íbúðalánasjóður, sem hefur sinnt þessu hlutverki til fjölda ára, er að draga saman seglin og það er mjög erfitt að fá fjármagn til að kaupa eldra húsnæði á mörgum þessara staða. Í raun og veru er þetta orðinn vítahringur.

Hvað með áætlanir ríkisvaldsins um að skipta Íbúðalánasjóði upp? Hvaða afleiðingar hefur það gagnvart möguleikum fólks á landsbyggðinni á að fjármagna húsnæðiskaup? Það er vissulega mikið áhyggjuefni að fólk hefur ekki aðgengi að fjármagni til að kaupa eldra húsnæði í þessum dreifðu byggðum úti um land. Það er bara ógerlegt.

Hér á höfuðborgarsvæðinu vitum við, í þeirri þenslu sem er í kringum ferðaþjónustuna, að mikið af húsnæði er farið til útleigu til ferðamanna. Það hefur bitnað mikið á þeim sem eru að leita sér að húsnæði. Það hefur orðið verðsprengja á leigumarkaði og mjög erfitt er fyrir fólk að fá húsnæði. Þetta er orðinn mikill vítahringur og því miður heyrir maður alltaf meira og meira af ungu fólki sem ákveður að fara úr landi vegna þess að það sér ekki öryggi og framtíð á húsnæðismarkaðnum. Það er mikið áhyggjuefni þegar ungt fólk, hvort sem það er menntað eða ómenntað, flytur úr landi vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir á leigumarkaði og vegna þess hve möguleikar ungs fólks til að kaupa sína fyrstu íbúð eru litlir.

Það er þannig í dag að þeir sem geta ekki reitt fram 20% af íbúðaverði þó að það séu íbúðir sem kannski kosta um 20 millj. kr. — þær fást varla fyrir lægri fjárhæð en það hér á höfuðborgarsvæðinu þó að umhverfið sé allt annað víða úti á landi; annaðhvort er þetta fólk upp á foreldra sína komið, þeir taka lán sjálfir og endurlána það, eða það er í vítahring og þarf að greiða sömu upphæð á uppsprengdum leigumarkaði og það hefði þurft að greiða ef viðkomandi eignaðist sambærilegt húsnæði. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt.

Ég vil líka vekja athygli á því að þær breytingar sem hafa verið boðaðar í framhaldsskólakerfinu, þess efnis að fólk eldra en 25 ára hafi ekki aðgang að bóknámi í framhaldsskólum, hafa líka áhrif á húsnæðismálin. Það er þá verið að beina ungu fólki úti á landi — sem getur ekki lengur farið í nám eftir að það er orðið 25 ára, hefur af einhverjum ástæðum ekki lokið stúdentsprófi — í einkaskóla og þeir eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Hér er ekkert húsnæði til staðar nema á uppsprengdu verði. Þá spyr maður sig: Út af hverju býður ríkið þá ekki upp á heimavist, með sambærilegum hætti og var hér áður fyrr í framhaldsskólum úti um land, t.d. í Reykholti, á Laugarvatni og á fleiri stöðum, í Reykjanesi og á Núpi, fyrir það unga fólk sem hefur ekki mikla fjármuni handa á milli og hugsar sér að fara aftur til síns heima, á ekki rétt á húsaleigubótum hér á höfuðborgarsvæðinu og eru í raun allar bjargir bannaðar?

Það þarf vissulega að gera stórátak varðandi húsnæðismál í landinu. Núverandi ríkisstjórn hefur dregið lappirnar allt of lengi í þeim efnum að koma með raunhæfar tillögur og leggja til þess fjármagn. Mér finnst þessi þingsályktunartillaga þingflokks Samfylkingarinnar vera mjög gott innlegg í það mál. Hér er talað um bráðaaðgerðir og þeirra er vissulega þörf.