145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

styrking leikskóla og fæðingarorlofs.

16. mál
[15:32]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér, eins og fram hefur komið, tillögu til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs sem er lögð fram af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Tillagan er framhald af fyrri tillögu þegar við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fram tillögu bæði á 142. og 143. löggjafarþingi um leikskóla að loknu fæðingarorlofi og þau undur og stórmerki gerðust í því meirihlutaræði sem við búum við á Íslandi að tillagan var samþykkt á 143. þingi sem þingsályktun nr. 5/143. Þingsályktun sú fól það í sér að skipaður var starfshópur sem hafði það hlutverk að meta kosti þess að bjóða leikskólavist við lok fæðingarorlofs, þ.e. við 12 mánaða aldur eins og fæðingarorlofi var þá háttað og er enn.

Starfshópurinn skilaði ágætri skýrslu í maí 2015 og ber hún heitið Skýrsla starfshóps vegna þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi. Það er eiginlega skemmst frá því að segja að niðurstaðan í skýrslu starfshópsins varð sú að það væri mjög mikilvægt að börn ættu greiðari aðgang að leikskólavist en nú er og að það varðaði með skýrum hætti hag hvers og eins barns óháð búsetu hvort það ætti þess kost að vera leikskólanemi eða ekki, þ.e. að það sé mikilvægt að jafna aðstöðumun hvað þetta aðgengi varðar. Einnig kom fram í þessari skýrslu að það væri talinn ótvíræður þjóðhagslegur ávinningur af því að börn ættu kost á leikskólavist.

Á árinu 2013 voru starfræktir 257 leikskólar í landinu og þeir höfðu innan sinna veggja á þeim tímapunkti um 20 þús. börn. Þá er staðan í rauninni sú að þorri allra barna í hverjum árgangi sem hafa náð tveggja ára aldri, fram að grunnskóla, sækir leikskóla þar til grunnskólanám hefst, það má segja að það gildi um velflest börn þar til grunnskólinn tekur við. Staðan er þá þannig núna að að afloknu fæðingarorlofi og þar til leikskólinn kemur til sögunnar erum við í raun og veru með óbrúað bil. Það hefur verið í umræðunni um langa hríð að þetta bil sé óbrúað og foreldrar hafa verið að bjarga þessu tímabili með ýmsu móti, með því að skiptast á, með því að sækja í þjónustu dagforeldra sem sum sveitarfélög bjóða upp á eða hafa innan sinna vébanda. Einhverjir ungbarnaleikskólar eru til og einhverjir einkaleikskólar sem taka við börnum mjög ungum en ekki hefur enn verið til heildstætt kerfi sem hefur tekið við börnum að afloknu fæðingarorlofi svo viðunandi sé. Ívitnuð skýrsla sem kom núna í maí 2015 er ágæt að mörgu leyti og nær mjög vel yfir þessi mál. Þar kemur mjög eindregið fram sú afstaða þeirra sem að koma, þ.e. bæði menntamálayfirvalda og sveitarfélaganna, að það sé komið að því að taka næstu skref í þessum efnum.

Auðvitað dugar ekki viljinn einn í þeim efnum og þar eru þá nefnd til sérstaklega þrjú viðfangsefni sem þarf að ganga í. Í fyrsta lagi er talað um kostnaðinn sem af þessu hlýst. Í öðru lagi er talað um húsnæðisþörfina sem er mismikil eftir landshlutum og sveitarfélögum. Í þriðja lagi er talað um menntun leikskólakennara sem er þáttur sem nú þarf að horfa til.

Ef við byrjum á að nefna fyrsta þáttinn sem kom fram í skýrslunni sem viðfangsefni, ef ég leyfi mér að kalla það svo, kostnaðinn, er rétt að taka fram í þessari umræðu að af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið litið svo á allt frá stofnun flokksins — þingflokkurinn á hverjum tíma hefur lagt fram ýmiss konar mál, fyrirspurnir og frumkvæði, í því efni að rétt væri að leikskólastigið væri gjaldfrjálst. Við höfum líka á sveitarstjórnarstigi rætt mikilvægi þessa, að þar væri um að ræða fyrsta skólastigið og mikilvægt að öll börn gætu notið þess óháð efnahag. Þegar á 130. löggjafarþingi var þingsályktunartillaga flutt þess efnis að leikskólinn yrði gjaldfrjáls. Hún hlaut ekki samþykki eins og okkur er væntanlega nokkuð ljóst, en eins og nú er er í raun heildarframlag forráðamanna barna, ef farið er yfir stöðuna í landinu í heild, um 18% að meðaltali, þ.e. foreldrarnir greiða um 18% en samfélagið eða útsvarið stendur straum af 82 hundraðshlutum.

Rekstur leikskólanna hefur auðvitað mikinn kostnað í för með sér og veldur miklum útgjöldum en við teljum að sá ávinningur sem fæst af öflugri, faglegri og sterkri leikskólastarfsemi sé umtalsvert eftirsóknarverður. Í tillögunni eins og við lögðum hana fram 2013 og raunar eins og við leggjum hana fram núna enn frekar gerum við ráð fyrir því að leikskóli framtíðarinnar sé án gjaldtöku enda sé þar um að ræða gunnþjónustu samkvæmt skilgreiningu. Auðvitað er alveg ljóst að þar með erum við enn komin að hinum margþættu og flóknu samskiptum ríkis og sveitarfélaga að því er varðar rekstur samfélagsins. Við höfum rætt þau mál hér undir ýmsum yfirskriftum, við höfum rætt þau að því er varðar aðkomu sveitarfélaganna að möguleika á tekjuöflun sem tengist ferðaþjónustu og uppbyggingu vinsælla ferðamannastaða. Skemmst er að minnast yfirfærslu verkefna sem lúta að málefnum fatlaðra, við getum talað um mál sem hafa verið í umræðunni að því er varðar tónlistarskólann eða þá bara yfirflutning grunnskólans á sínum tíma og það fjármagn sem þar fylgdi og síðari tíma efasemdir um að það fjármagn hafi verið fullnægjandi miðað við þær kröfur sem við höfum síðan gert til grunnskólans.

Þetta var í fyrsta lagi. Markmið okkar er sem sé að leikskólinn sé gjaldfrjáls grunnþjónusta og við teljum að það sé raunar umhugsunarefni að við þurfum á árinu 2015 að standa sérstakan vörð um að grunnskólinn sé án gjaldtöku. Það er því miður ekki svo, það eru töluverð útgjöld sem fjölskyldurnar þurfa að leggja í fyrir grunnskólann. Það eru pappírar, pennar, límstifti, möppur og ýmislegt þar að lútandi fyrir utan skólamáltíðirnar sem ættu líka að vera hluti af gjaldfrjálsri þjónustu.

Það er heilmikið verkefni fram undan að því er varðar leikskólakennaramenntunina. Þar er ekki hægt að staldra við öðruvísi en að benda á kjör leikskólakennara og mikilvægi þess að hvetja ungt fólk með sértækum hætti til náms í leikskólakennarafræðum. Þá má velta fyrir sér hvort hægt sé að beita tímabundið sérstökum aðgerðum í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna eða eitthvað slíkt til að örva ungt fólk til náms í leikskólakennarafræðum. Hér hef ég fyrst og fremst dvalið við leikskólahlutann en að okkar mati er mikilvægt að leikskólavist barns geti hafist þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur þannig að það komi aldrei rof í þetta ferli allt saman. Raunar er það þá viðfangsefni framkvæmdarvaldsins ef niðurstaðan verður að fara í að framkvæma þessa stefnu Alþingis. Í þeirri þingsályktunartillögu sem við leggjum fram hér til umræðu og umfjöllunar erum við að tala um lengingu fæðingarorlofsins upp í 18 mánuði úr þeim níu sem það varir nú. Dvöl barns á leikskóla gæti þó hafist við 12 mánaða aldur, þ.e. það eru einhver sveigjanleg skil þarna og það er útfærsluatriði. Sumum þykir nokkuð flókið að setja þetta fram með þessum hætti en okkur fannst það í sjálfu sér ekki skaða tillöguna að setja hana fram þannig að þessi skil gætu verið sveigjanleg með tilliti til mismunandi aðstæðna fólks og mismunandi eiginleika barna. Börn eru fólk, og alla vegana fólk sem hefur alls konar þarfir, sýn og vilja, en ekki síður er tillagan í anda þess sem hefur verið vaxandi í umræðunni. Því miður hefur sú umræða kannski ekki ratað nægilega vel inn í menntamálaráðuneytið undir stjórn Illuga Gunnarssonar en hún er um mikilvægi þess að leggja aukna áherslu á sveigjanleika milli skólastiga, þ.e. að andrúm, kennsluaðferðir og hugmyndafræði leikskólastigsins nái betur inn í grunnskólann, og það verði ekki það sem stundum er kallað bóknámsrek, þ.e. það verði alltaf texta- og læsisþrýstingur inn í leikskólastigið og kannski ekkert síður á hinn veginn, að leikskólahugmyndafræðin eigi greiða leið inn í grunnskólann. Grunn- og framhaldsskólinn verða að vera samfella og ekki síður framhaldsskólinn og háskólastigið. Eins og nú er haldið á málum eru skilin því miður gerð enn skarpari og nú síðast með væntanlega einhvers konar matsgerð í upphafi framhaldsskólans sem setur framhaldsskólann í algjörlega nýja stöðu gagnvart grunnskólanum.

Ég bið um að fólk festi sig ekki of mikið í þeim tölum sem hér eru nefndar, þ.e. 18 mánuðum eða 12, heldur skoðum við þetta fyrst og fremst með þeim augum að hér sé horft til þess að skilin geti verið sveigjanleg en tillagan geti auðvitað líka snúist um að þau séu skarpari í anda þess sem nú er.

Tillagan er í þrennu lagi og þar gerum við ráð fyrir sjö manna starfshópi sem sé áfram leiddur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu eins og var um starfshópinn sem byggði á hinni fyrri þingsályktunartillögu en þar komi líka að fulltrúi velferðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags leikskólakennara og svo Vinnumálastofnunar sem er vörsluaðili Fæðingarorlofssjóðs.

Starfshópurinn á að gera tillögur um þrennt, í fyrsta lagi hvernig staðið skuli að lengingu fæðingarorlofs í 18 mánuði og fjármögnun þess, í öðru lagi afmörkun þess tímaskeiðs sem sveitarfélögum á að gefast til að lengja leikskólastigið þannig að leikskólinn í öllum sveitarfélögum geti boðið öllum ársgömlum börnum í gjaldfrjálsan leikskóla og fjármögnun þess. Í þriðja lagi er það sem bent var á í skýrslunni nauðsynlegar lagabreytingar til að styrkja stöðu leikskólanna sem fyrsta skólastigsins í menntakerfi landsins. Skýrsluhöfundar bentu á að því væri ábótavant í löggjöfinni að þetta væri skýrt hlutverk og verkefni sveitarfélaganna.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að ráðherra leggi síðan tillögur starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en 1. maí 2016. Hér er sem sagt um að ræða tillögu sem er í beinu framhaldi af fyrri tillögu sem hlaut faglegan þverpólitískan stuðning og auk þess hefur hún hlotið mjög afgerandi stuðning frá sveitarfélögunum. Ég tel mjög mikilvægt að við vindum bráðan bug að því að koma þessu í framkvæmd. Segja má að þessi tillaga sé að því leytinu til skyld ýmsum öðrum tillögum sem hér hafa komið fram, tillögu um umbætur í húsnæðismálum og fleiri slíkum. Það snýst allt saman um það að gera Ísland að raunverulegum valkosti fyrir ungar fjölskyldur, fyrir ungt fólk að búa, ungt fólk sem horfir víðar en bara á Ísland sem mögulegan stað til að festa rætur, ala upp börnin sín, læra, vinna og njóta lífsins.

Við þurfum að gyrða okkur í brók að því er varðar allan umbúnað um barnafjölskyldur, þar með leikskólann, fæðingarorlofið, Lánasjóð íslenskra námsmanna, húsnæðismál, almenningssamgöngur og hvað það annað sem við þurfum að gera betur í til að Ísland sé verulega góður og öflugur valkostur fyrir ungt fólk, sérstaklega með börn.

Ég vil líka í því sambandi nefna fjarskiptamál sem er gríðarlega mikilvægur þáttur, ekki síst úti um land þar sem þau eru í lamasessi mjög víða og koma beinlínis í veg fyrir að sum svæði á Íslandi séu raunhæfur valkostur fyrir ungar fjölskyldur að hefja sinn búskap, hvað þá að halda honum áfram.

Forseti. Ég hef lokið yfirferð yfir þá þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram og legg til að henni verði vísað til meðferðar hjá (Forseti hringir.) allsherjar- og menntamálanefnd.