145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

styrking leikskóla og fæðingarorlofs.

16. mál
[15:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim stóru velferðarmálum sem eru hér til umræðu. Áðan ræddum við um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum og nú ræðum við um þingsályktunartillögu okkar, þingflokks Vinstri grænna, þar sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir er 1. flutningsmaður, um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofsins. Þar er vissulega brýnt verkefni sem við þurfum að ráðast í. Í þessum ræðustól hefur verið rætt um að lækka skatta en þá vil ég benda á að svona málaflokkar, hvort sem eru húsnæðismál eða styrking leikskóla og fæðingarorlofs, eru vanfjármagnaðir. Þeir snúa að unga fólkinu okkar, framtíð þess á Íslandi, hvort það kýs að búa hér og ala upp sín börn í því velferðarkerfi sem við búum þeim hverju sinni eða hvort ungt fólk ber til dæmis saman aðstæður á Norðurlöndunum og kýs með fótunum, ef við getum sagt það, og flytur til útlanda. Það er bara ekkert flóknara en það. Þess vegna er auðvitað dapurlegt að þessi ríkisstjórn hefur afsalað sér tekjum upp á meira en 40 milljarða á þeim tveimur árum sem hún hefur verið við völd. Verkefnin eru ærinn uppsafnaður vandi og líka þau að færa okkur nær því velferðarsamfélagi sem við viljum bjóða upp á og er á Norðurlöndunum.

Ég tel að það að lengja fæðingarorlofið í 18 mánuði og að leikskólar geti tekið við börnum strax við 12 mánaða aldur sé líka mikið jafnréttismál. Þetta skiptir máli upp á þátttöku foreldra á vinnumarkaði. Við vitum að það er oftar en ekki konan sem er heima og getur ekki stundað áfram sína vinnu ef barnið kemst ekki á leikskóla. Auðvitað brúa margir foreldrar þetta bil með ýmsum hætti eins og hjá dagforeldrum. Mikið óöryggi og óvissa fylgir því, ekkert er í hendi og því fylgir aukinn kostnaður. Það er nauðsynlegt að tryggja ungum börnum bæði góðan aðbúnað og öryggi þegar kemur að umönnun.

Ég vil vekja athygli á einum vinkli í þessu máli. Oft er það þannig að börn fólks af erlendum uppruna sem býr á Íslandi, hefur búið hér og ætlar að búa hér, eru ekki á leikskóla. Oft koma til dæmis ömmur erlendis frá og gæta þessara barna í heimahúsi. Þau eru þá ekki á leikskólum og njóta ekki þess þroska og þeirrar menntunar sem þar er í boði og samskipta við önnur börn sem skyldi, læra síður tungumálið og þegar kemur að skólaskyldu í grunnskóla eru þau ekki stödd á sama stað og jafnaldrar þeirra. Ég tel að þetta mál þyrfti að skoða miklu betur, þ.e. hvernig búið er að börnum af erlendum uppruna á Íslandi og hvernig skólakerfið sinnir þörfum þeirra. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt eins og kemur fram í þessari tillögu að gera lagabreytingar sem styrki stöðu leikskólanna sem fyrsta skólastigs í menntakerfinu, staðfesti þá skyldur sveitarfélaganna til að starfrækja leikskóla og það sé í raun og veru gjaldfrír leikskóli sem ýtir undir að börnum erlendra íbúa gefist kostur á að fara í leikskóla á sama aldri og önnur börn.

Það eru vissulega margar hliðar á þessu máli og brýnt að við sem nútímaþjóðfélag mætum bæði foreldrum og börnum með þeim hætti að fæðingarorlof sé lengt og það bjóðist að taka börn inn að lágmarki við 12 mánaða aldur.

Vissulega er staðan víða úti um land þannig að leikskólar hafa sökum fámennis getað boðið börnum þar leikskólavist miklu yngri en á höfuðborgarsvæðinu. Það er af því góða að það sé í boði og sem betur fer er hægt að tína til ýmislegt jákvætt við það að búa í minni byggðarlögum úti á landi. Þetta er eitt af því.

Menn benda alltaf á þann mikla kostnað sem fylgir þessum verkefnum. Vissulega er þarna um háar fjárhæðir að ræða og við sem þjóð verðum að gera þetta í einhverjum áföngum. Ég held að það sé veruleikinn en vil samt segja að flæði þarf að vera á milli leikskóla og grunnskóla, að það sé boðið upp á að elstu börn í leikskóla, fimm ára, komist fyrr inn í grunnskólann. Það mundi auðvitað gerast af sjálfu sér ef við færum út í þær lagabreytingar að gera leikskólann að fyrsta skólastigi, þá yrði flæði þarna á milli. Það er talað um að það þurfi svo mikið aukið húsnæði ef þetta á að ganga eftir. Ég held að víða sé líka hægt að nýta grunnskólana betur og þá skiptir kannski ekki öllu hvort fimm ára börn séu á leikskóla eða í grunnskólanum. Ég held að þá auðveldi það flæðið þarna á milli.

Á þó nokkrum stöðum úti á landi, í minni byggðarlögum, eru leikskóli og grunnskóli undir sama þaki. Ég nefni til dæmis Súðavík en það er auðvitað á fleiri stöðum. Við þingflokkur Vinstri grænna fórum í mikla fundaferð fyrir tveimur vikum eða svo og fórum meðal annars á Strandir, í minnsta sveitarfélag landsins, Árneshrepp, þar sem rekinn er glæsilegur skóli. Þar er allt undir sama þaki og er til fyrirmyndar hvernig tekist hefur til. Þetta er alveg örugglega hægt í mörgum byggðarlögum þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að á höfuðborgarsvæðinu yrðu húsnæðismálin snúin til að byrja með. Ég held þó að það væri alveg hægt að leysa úr því í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að koma þeim málum í höfn.

Þetta er mikið framfaramál að mínu mati, mikið jafnréttismál og velferðarmál fyrir okkur sem þjóðfélag ef við ætlum að bjóða ungu barnafólki (Forseti hringir.) góðan aðbúnað hér í framtíðinni.