145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

styrking leikskóla og fæðingarorlofs.

16. mál
[16:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur þessa athugasemd. Leikskólastigið hefur auðvitað breyst gríðarlega mikið með aukinni menntun, rannsóknum og fagþekkingu sem hefur farið vaxandi samhliða því að leikskólastigið var viðurkennt sem fyrsta skólastigið. Auðvitað var heilmikið þekking og reynsla til staðar, en það má segja að með þessari aðgerð hafi menntahlutinn og rannsóknarhlutinn fengið ákveðið „púst“, svo ég noti svo óvirðulegt orðafar um þetta. Það hefur haft jákvæð áhrif.

Hins vegar vil ég segja að það er áhyggjuefni eins og vikið er að í greinargerð með þessari tillögu að það er skortur á fagmenntuðum leikskólakennurum. Þar þarf að fara í eitthvert átaksverkefni. Ég hefði kosið að sjá slíkt gert í samvinnu leikskólakennara, sveitarfélaganna og stjórnvalda, eitthvað í líkingu við það sem gert hefur verið sums staðar þar sem ég þekki til, í Bretlandi svo dæmi sé tekið var beinlínis farið í markaðsherferð, svo maður bregði nú fyrir sig kapítalískum aðferðum, til þess að fá fleira fólk í leikskólakennaranám. Sú markaðsherferð bar ágætisárangur. Það er líka hægt að nota hvata, t.d. Lánasjóð íslenskra námsmanna, til þess að fá fleira fólk í leikskólakennaranám og beita þá einhverjum umbunum með lánasjóðskerfinu.

Það liggur fyrir að við þurfum að halda áfram að byggja upp þetta góða starf sem mikil ánægja er með hjá foreldrum, eins og ég kom að í minni ræðu, það skiptir mjög miklu máli. Sex ára bekkur er ekki það sama og hann var, eins og hv. þingmaður nefndi, af því að nú fara nánast flest börn í leikskóla. Sex ára bekkur í dag er að fást við allt önnur viðfangsefni en til að mynda þegar ég gekk í sex (Forseti hringir.) ára bekk. Það er náttúrlega af því að grunnurinn er orðinn allur annar.