145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

styrking leikskóla og fæðingarorlofs.

16. mál
[16:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil blanda mér aðeins í umræðu um þetta mikilsverða mál og þakka fyrir margar ágætar ræður sem hér hafa verið fluttar þar sem m.a. hafa verið færð góð rök fyrir mikilvægi leikskólans. Í mínum huga er þetta afar brýnt og metnaðarfullt samfélagslegt mál sem hér er á dagskrá og fylgir eftir þeirri áherslu sem við höfum sem flokkur, Vinstri græn, lagt á leikskólann allt frá okkar stofnun og frá því að við hófum baráttuna og umræðuna um gjaldfrjálsan leikskóla á Íslandi fyrst og einn flokka lengi framan af.

Nú á dögunum varð talsverð umræða um gjaldtöku í grunnskólanum sem hefði læðst aftan að mönnum og háværar raddir voru um að menn yrðu að vinda ofan af þeirri þróun því grunnskólinn ætti að vera gjaldfrjáls. En að sjálfsögðu á leikskólinn að vera það líka sem fyrsta skólastigið þannig að hér eru þrjú mikilvæg mál undir. Það er að leikskólinn verði gjaldfrjáls, að loka gatinu milli fæðingarorlofsins og leikskólans og að tryggja fullnægjandi fjármögnun hvors tveggja.

Ég ætla aðallega að gera síðastnefnda þáttinn um fjármögnunina að umtalsefni. Ég vil þó segja um leikskólann og í samhengi við umræðuna um aðstæður ungs fólks á Íslandi í dag og samkeppni um það að ef menn vilja virkilega breyta orðum sínum í athafnir held ég að það blasi við að fátt gæfulegra gætu þeir gert en að gera einmitt stórátak í að bæta fæðingarorlofskerfið eða byggja það upp á nýjan leik bæði með því að lyfta þökunum, sem er rétt, það þarf að gera það því við viljum ekki sætta okkur við þá þróun að í vaxandi mæli nýti feður ekki sinn orlofsrétt, og lengja síðan fæðingarorlofið. Einhvers staðar þarf þetta svo að mætast að sveitarfélögin fyrir sitt leyti í samstarfi við ríkið geri það átak sem til þarf í málefnum leikskólanna þannig að almennt geti þeir tekið við börnunum að loknu fæðingarorlofi foreldra.

Því miður hefur okkur ekki miðað áfram í þessum efnum síðustu þrjú árin frá því að fyrri ríkisstjórn tók fyrsta skrefið í að byggja fæðingarorlofið upp á nýjan leik eftir að það hafði vissulega orðið að sæta skerðingum, fyrst og fremst í formi þess að þakið var lækkað á mestu erfiðleikaárunum.

Ég lagði fram fyrirspurn í fyrra til hæstv. fjármálaráðherra um ráðstöfun launatengdra gjalda, þ.e. tryggingagjaldsins og meðferð þess. Þar undir er Fæðingarorlofssjóður og hefur verið frá árinu 2000 þegar honum voru færð með lögum 0,85% af tryggingagjaldsstofninum sem er allur launagreiðslustofninn í landinu. Frá 2000–2005 hélst þetta hlutfall en þá var aftur bætt í fæðingarorlofið og hlutur Fæðingarorlofssjóðs var hækkaður í 1,08% af þessum hinum sama stofni og þannig hélst það til ársins 2012 þegar fyrri ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ákvað að styrkja fjárhagsstöðu Fæðingarorlofssjóðs annars vegar til að byggja fjárhag hans upp á nýjan leik, en hann hafði þá verið rekinn við eða undir núllinu á alllöngu árabili, og hins vegar til þess að leggja grunninn að því að byggja fæðingarorlofsréttindin upp á nýjan leik. Fyrsta skrefið var svo tekið á árinu 2013.

En hvað gerði núverandi ríkisstjórn þegar hún komst til valda? Hún helmingaði tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs og hlutfallið sem til hans rann, 1,28% fór niður í 0,65% og þannig helst það. Þetta leiddi auðvitað til þess að tekjur Fæðingarorlofssjóðs nánast hrundu, þær nánast helminguðust, þótt vissulega hafi skattstofninn tekið núna við sér. Þær voru 12–12,7 milljarðar á árinu 2012 og 2013 með þeirri hækkun sem ég vitnaði til áðan, en hrundu niður í 6,7 milljarða á árinu 2014 og losa núna 7 milljarða. Það er lægsta tala, það eru minnstu tekjur sem Fæðingarorlofssjóður hefur haft síðan 2001. Minni fjármunum er ráðstafað núna að raungildi í Fæðingarorlofssjóð en nokkru sinni hefur verið gert frá því að hann tók til starfa í núverandi mynd á grundvelli nýrra laga um Fæðingarorlofssjóð.

Þetta hefur leitt til þess, ef við skoðum fjárhagsstöðu sjóðsins eða sjóðstöðuna, að það eigið fé sem safnaðist upp í sjóðnum til að leggja grunninn að bæði hækkun þaksins og lengingu fæðingarorlofsins eins og lögfest var í tíð fyrri ríkisstjórnar er að étast upp. Fæðingarorlofssjóður fór úr neikvæðri stöðu upp á 1,5 milljarða árið 2011 í jákvæða stöðu upp á 2,5 milljarða 2012 og 6,7 milljarða 2013. Hann var þar af leiðandi orðinn vel staddur og búið var að byggja upp sjóðinn til að hann gæti tekist á við aukin útgjöld í framtíðinni sem væru samfara því að lyfta þakinu og lengja fæðingarorlofið. En hvað gerir blessuð núverandi ríkisstjórn, herra forseti? Hún er svo óskaplega metnaðarlaus í þessum efnum að hún helmingar tekjustofninn og færir hann yfir til ríkisins. Hún notar ekki tækifærið til að viðhalda sterkri stöðu Fæðingarorlofssjóðs og byggja hann upp með hluta af tryggingagjaldsstofninum á tímum minnkandi atvinnuleysis þannig að það hefði þess vegna verið hægt að lækka tryggingagjaldið í heild þó að Fæðingarorlofssjóður hefði fengið að halda sínum hlut. Þannig snarast staðan úr tæpum 6,8 milljörðum árið 2013 niður fyrir 5 milljarða 2014 og niður undir 3 milljarða á þessu ári.

Með sama áframhaldi má ætla að sjóðurinn verði kominn niður í 1 milljarð eða jafnvel undir það á árinu 2016 af því að í fjárlagafrumvarpinu er okkur boðað óbreytt ástand, óbreytt metnaðarleysi hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum. Ég trúi því ekki að þessi ríkisstjórn ætli að fá þau eftirmæli að hún láti fæðingarorlofið algerlega mæta afgangi að þessu leyti, ætli ekkert að gera, hvorki lyfta þakinu né lengja fæðingarorlofið, hvað þá að byrja að leggja grunninn að framtíð eins og þeirri sem við erum hér að tala fyrir, að fæðingarorlofið verði styrkt samhliða því að leikskólinn verði efldur þannig að við lokum gatinu á milli fæðingarorlofs og leikskóla og tryggjum ungu barnafjölskyldunum það öryggi og þá velferð sem í því er fólgin að geta, án þess að þurfa að hafa sérstakar áhyggjur af börnunum sínum, treyst á það að fyrir því sé séð. Það hefur að mínu mati ómældan samfélagslegan ávinning í för með sér að taka á þessu máli með þessum hætti en það hefur líka gríðarlegan ávinning í för með sér fyrir atvinnulífið og fyrir allt samfélagið. Satt best að segja held ég að einhverjir áköfustu stuðningsmenn þess ættu að vera aðilar vinnumarkaðarins og ég efast ekkert um það að þeir væru tilbúnir til að vera með í því ferli ásamt ríki og sveitarfélögum að byggja þetta kerfi svona upp.

Hvað skiptir máli þegar keppt er um hæft menntað ungt fólk til starfa í metnaðarfullri atvinnuuppbyggingu, hvort sem vinnuveitandinn er hið opinbera eða einkaaðilar? Það er þetta umhverfi sem skiptir öllu máli. Það sýna allar kannanir. Það vegur oft þyngra þegar fjölskyldur eru spurðar að því hvað ræður ákvörðun þeirra um að búsetja sig hér eða starfa hér, þá eru aðstæður fjölskyldunnar oftast í efsta sæti, ósköp eðlilega, því það er það sem ábyrgir foreldrar hugsa um. Það skiptir margt fleira svo miklu máli annað en launaupphæðin ein í þeim efnum. Þetta hafa framsýnir stjórnendur margoft upplifað og vita að það er í þágu alls samfélagsins og ekki síst atvinnulífsins að þessir innviðir séu til staðar, þeir séu sterkir og umhverfi fjölskyldnanna sé gott að þessu leyti.

Hér verðum við Íslendingar einfaldlega að gera betur. Við getum ekki boðið okkar unga fólki upp á það að fæðingarorlofið sé hér mun styttra en annars staðar og auðvitað rýrara að þessu leyti af því að þökin liggja allt of neðarlega í dag og það sé bullandi óvissa á jafnvel upp í eins og hálfs árs tímabili með þeim margvíslegu vandamálum sem fylgja frá því að rétti foreldranna til fæðingarorlofs lýkur og þangað til leikskólarnir opnast fyrir börnin. Sem betur fer er ástandið auðvitað misjafnt og sums staðar mjög gott eins og við heyrðum hér áðan frá Blönduósi og einstöku sveitarfélög hafa tekið skrefið til fulls og eru með gjaldfrjálsan leikskóla. Ég veit ekki hvort Súðavíkurhreppur varð fyrsta sveitarfélagið til þess en alla vega man ég eftir því að (Forseti hringir.) koma þangað í heimsókn fyrir 10–15 árum og hvað það gladdi mig óendanlega mikið að það litla sveitarfélag hafði tekið ákvörðun um og gert leikskólann gjaldfrjálsan.