145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

styrking leikskóla og fæðingarorlofs.

16. mál
[16:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa yfir mikilli ánægju með þessa þingsályktunartillögu frá þingflokki Vinstri grænna og skora á ríkisstjórnina að taka vel í hana og vinna markvisst að því að bæta stöðu yngstu barnanna okkar í samfélaginu. Mér finnst, og það kom fram í málflutningi síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að það ríki allt of mikið metnaðarleysi í þessu samfélagi hvað börn varðar og svo hefur verið allt of lengi. Reyndar steig síðasta ríkisstjórn stór skref í áttina að því að lengja fæðingarorlofið í stigum upp í 18 mánuði. Ég held að það væri mjög gott að fara upp í 12 mánuði á fyrsta stigi.

Eins og fram kemur í greinargerðinni er leikskólinn fyrsta skólastig barna. Það kemur líka fram í greinargerðinni, og við vitum það öll, að kostnaður sveitarfélaganna mun aukast töluvert við að taka börn inn á leikskóla á þessum aldri, það þarf að breyta leikskólum og manna betur og þetta verður allt miklu dýrara. Þótt það sé kannski óábyrgt af mér þá velti ég ekki fyrir mér hvað hlutirnir kosta þegar menntun er annars vegar. Auðvitað eigum við að reyna að gera hlutina á sem hagkvæmastan hátt en þegar menntun barnanna okkar, og samfélagsins alls, er í húfi eigum við ekki að vera að tala um kostnað, þetta er fjárfesting. Við erum að fjárfesta í framtíðinni og við erum að fjárfesta fyrir samfélagið allt.

Mig langar að lesa mjög góða málsgrein í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Málefni leikskólanna, áhersla á mikilvægi þeirra og réttlætið sem í því felst að öll börn á leikskólaaldri eigi kost á leikskólavist án tillits til fjárhags forráðamanna þeirra hefur verið snar þáttur í baráttu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir betra samfélagi allt frá stofnun stjórnmálaflokksins, enda er málefnið til þess fallið að bæta og treysta hag barna í menntunarlegu og félagslegu tilliti, létta fjárhagsbyrði efnaminni barnafjölskyldna, bæta hlutskipti yngsta hluta þjóðarinnar og stuðla að jafnrétti kynjanna.“

Þetta finnst mér afskaplega góð lýsing á því hvers vegna við ættum algjörlega að gera þetta.

Nú hef ég sjálfur reynslu af því, verandi giftur leikskólastjóra, hvað þessi stofnun er gríðarlega mikilvæg og hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir börn að komast inn á slíka stofnanir — eða ekki stofnanir, það er ljótt orð, inn í svona menntaumhverfi. Þarna byrjar menntun barna. Reyndar byrjar menntun barna strax inni á heimilinu, maður sér það sjálfur og upplifir sem afi í fyrsta skipti hvernig barnið byrjar að þroskast og hvað það er mikilvægt að það búi í öruggu og góðu umhverfi þar sem því er kennt að lifa í samfélaginu. Ég hef oft vitnað í hina og þessa menn og til dæmis segir Gunnar Hersveinn heimspekingur, sem hefur mikið látið til sín taka í svona málum, í bók sinni Lífsgildin, með leyfi forseta:

„Bernskan er ævintýri og það er ævintýri að ala upp barn. Bernskan er dýrmæt og viðkvæm og þarfnast gætni og virðingar. Barnið þarf föruneyti, ráð og leiðbeiningar til að geta metið aðstæður og tekið gifturíkar ákvarðanir. Verkefnið er það sama og í öllum ævintýrum: Að læra að greina á milli góðs og ills og sýna hugrekki og styrk.“

Það er nákvæmlega þetta sem maður sér í því starfi sem á sér stað á leikskólum í dag. Starfið miðar að því börn læri strax hvernig þau eiga að umgangast hvert annað og hvernig þau eiga að fara að því að lifa í mannlegu samfélagi. Það hefur verið komið inn á það í ræðum í dag og máli fyrri flutningsmanna hvað staða fólks í samfélaginu hefur breyst gríðarlega á síðustu árum. Það var síðast í dag verið að ræða húsnæðismál og bráðaaðgerðir gagnvart þeim. Ég velti því oft fyrir mér hvers vegna í ósköpunum við erum í þessari stöðu í dag hvað varðar húsnæðismál ungs fólks og hvernig staða fjölskyldna er sem eru að byrja lífið, byrja að búa og koma sér upp heimili. Hvers vegna í ósköpunum er staðan svona ofsalega erfið á Íslandi? Og hvers vegna erum við alltaf svona langt á eftir?

Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna núverandi ríkisstjórn dró til baka þær aðgerðir sem var farið af stað með á síðasta kjörtímabili. Ég skil það ekki. Við erum að tala um börn og við erum að tala um framtíðina. Börnin eru það dýrmætasta sem þessi þjóð á. Það hversu vel við hugsum um þau frá byrjun hefur áhrif á það hvernig þau koma út í samfélagið að skóla loknum.

Það er svo mikilvægt að þetta sé samfellt ferli. Ég fagna því ef það verður þannig að börn verða tekin inn á leikskóla við 12 mánaða aldur, við getum byrjað á því. Auðvitað er þetta alltaf smá deila, við búum í þannig samfélagi. Ég hitti til dæmis eldri mann á ferðalagi mínu í kjördæminu og hann sagði: Þið verðið að hætta þessari bölvaðri barnadýrkun á Íslandi. Ég spurði hann hvað hann meinti með því og hann svaraði: Bara þessi barnadýrkun, það á að gera allt fyrir börn og ungt fólk. Það eru enn þá til svona raddir á Íslandi, fólk sem er fast í einhverjum torfkofahugsunarhætti og áttar sig ekki á því að það er árið 2015. Við búum í gríðarlega hröðu samfélagi sem er orðið fjölbreytt, þetta er fjölmenningarsamfélag, margbreytileiki mannlífsins er til staðar. Við verðum að vera tilbúin til að taka á móti fjölbreytileikanum og taka þátt í honum.

Maður sér þetta á leikskólunum, t.d. í mínu byggðarlagi. Ég þori ekki að nefna tölu en þar eru börn af mörgum þjóðernum í fjölskyldum sem aðhyllast mismunandi trúarbrögð. Það segir mér hversu gríðarlega mikilvægt fyrsta skólastigið er, börnin læra á fyrstu stigum þess að umgangast hvert annað, bera virðingu fyrir ólíkum trúarbrögðum og ólíkri menningu og læra á ólíka menningu.

Ég held að öll þjóðin muni fagna því ef það verður að veruleika að fæðingarorlofið verður 12 mánuðir og hægt verður að koma börnum beint inn á leikskóla eftir það. Það eru örugglega til einhverjir sem eru á móti því, það er alltaf þannig. Eins og kom fram áðan finnst mér metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar hrópandi í þessum málum. Það kom fram í ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur að ríkisstjórnin hefur síðan hún tók við afsalað sér tekjum upp á 40 milljarða og það er verið að lækka skatta. Maður veltir fyrir sér hvernig við eigum þá að reka samfélagið. Mér finnst ekkert allt of bjart yfir því þegar svona er farið að. Við þurfum að styrkja samfélagið, efla það. Ef það eru ekki börnin sem eiga að vera í forgangi, hvað þá? Það er alltaf eins og umræðan um börn og hag barna og hvernig við eigum að umgangast þau og þetta málefni megi mæta afgangi.

Ég var einn af þeim sem skipaðir voru talsmenn barna á Alþingi og hef lagt mig allan fram við að vera talsmaður þeirra hér og mun gera það áfram, vegna þess að maður sér alltaf betur og betur hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir samfélag að hlúa vel að uppeldi barna og aðstæðum þeirra.

Eins og kemur fram hérna yrði alveg stórkostlegt ef við gætum haft leikskólann gjaldfrjálsan. Mér finnst að af því þetta er viðurkennt fyrsta skólastig barnanna eigum við ekki að láta fólk borga, ekki frekar en á grunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi.

Síðan eru, eins og kemur fram í greinargerðinni, náttúrlega vandræði að fá leikskólakennara. Þetta er orðið fimm ára nám en kjörin og kaupið er til háborinnar skammar. Maður veltir fyrir sér hvers vegna laun leikskólakennara eru skelfilega lág en laun framhaldsskólakennara og háskólakennara svona há, ekki það að þeir eiga það alveg skilið, en þetta eru börn á leikskólaaldri sem er viðkvæmasta og mikilvægasta tímaskeið ævinnar, frá því að þau fæðast og þangað til þau fara í grunnskóla.

Ég fagna því þessari tillögu og vona að hún fái gott brautargengi og að við náum að ræða málin. Ég vona að ríkisstjórnin gyrði sig í brók, eins og einhver sagði áðan, og komi fæðingarorlofsmálum og leikskólamálum í þannig horf að sómi sé að því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er bara þannig.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.