145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

18. mál
[17:01]
Horfa

Flm. (Ásta Guðrún Helgadóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu hv. þingmanns. Ef ég skil hv. þingmann rétt þá er hún að spyrja um hvenær það komi í ljós hvort upplýsingar hafi verið nægar eða réttar. Það verður náttúrlega að meta í hverju tilviki fyrir sig. Held að það sé engin töfralausn á því.

Þetta er náttúrlega hugsað sem mikið aðhaldstól, verði frumvarpið að lögum, fyrir þingið vegna þess að þarna er verið að draga inn ráðherraábyrgð fyrir það að gefa þinginu rangar upplýsingar eða ekki nógu góðar upplýsingar. Það á náttúrlega að ganga yfir óundirbúnar fyrirspurnir, undirbúna fyrirspurnatíma og þar fram eftir götunum.

Síðan verður að skoða það hverju sinni hvort upplýsingarnar hafi verið réttar og hvort hægt sé að meta það. Það er kannski eitthvað sem þyrfti bara að koma í ljós, bæði með aðhaldi frá fjölmiðlum, dómstólum og Alþingi.