145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

18. mál
[17:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er aðeins að reyna að átta mig á hvar þetta nákvæmlega liggur. Þegar við tölum um upplýsingar í þessu tilfelli, er þá bara verið að tala um hvaða upplýsingar sem er? Ég ber fram fyrirspurn til ráðherra um húsnæðismál eða eitthvert frumvarp sem er í undirbúningi og ráðherrann kemur og svarar einhvern veginn. Síðan kemur kannski í ljós þegar frumvarp er lagt fram að þetta svar, sem var gefið tveimur eða þremur mánuðum áður eða þremur vikum áður eða ég veit ekki hvenær, var ekki rétt, vegna þess að frumvarpið hefur breyst eða eitthvað svona. Ég geri ráð fyrir að við séum ekki að tala um upplýsingar af því tagi. Við erum frekar að tala um einhverjar upplýsingar sem liggja í kerfinu, t.d. að birta rangar tölulegar upplýsingar um ástand í húsnæðismálum, eða hvað? Ég er að reyna að finna út hvar við komum að þessum refsipunkti því það er náttúrlega svolítið stórt mál.