145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

18. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Ásta Guðrún Helgadóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur mjög fyrir góðar spurningar. Hv. þingmaður spyr hver þörfin sé. Það hefur verið mælt með því í ýmsum rannsóknarskýrslum og sagt að þetta sé nauðsynleg breyting, hvort sem við erum að tala um rannsóknarskýrslu Alþingis eða skýrslu um eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Þetta er eitthvað sem vantar í íslenska löggjöf en sambærilegt má finna í danskri löggjöf og í ýmsum öðrum löndum, að þingið geti krafist réttra og sannra svara. Eins og er í núgildandi lögum er einungis hægt að ýja að því. Það þykja góð vinnubrögð að segja satt og ég trúi því að flestir ráðherrar segi oftast satt þegar þar að kemur, en sú staða hefur náttúrlega komið upp að vafi hafi leikið á því hvort ráðherra hafi sagt satt.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að við viljum fara vel með vald. Hvernig stuðlum við að betra samfélagi með þessu? Þetta snýst um valdajafnvægi. Eins og staðan er núna getum við ekki dregið ráðherra til ábyrgðar hafi hann komið og sagt ósatt á þingi þrátt fyrir að vita betur. Þá þurfum við einhverja leið, bæði til þess að gera það að ófýsilegum kosti, einfaldlega með því að gera það refsivert, og til þess að ef til slíks máls kæmi gætum við gert eitthvað í því, sem er náttúrlega grundvöllurinn fyrir því að eiga gott lýðræðisríki.