145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

18. mál
[17:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég finn það alveg inni í mér að ég væri til í að eiga miklu, miklu lengra samtal við hv. þingmann um þetta mál. En ég staldra svolítið við orðræðuna, pólitísku orðræðuna sem er í gangi á Íslandi þegar fólk sem er kjörnir fulltrúar og fólk sem lendir í pólitískri orrahríð segir mjög gjarnan: Ja, ég legg bara verk mín í dóm kjósenda, ég þarf ekkert að standa skil á því að segja satt og hvenær og hvað. Og þeir sem eru í kring segja: Ég tel að þingmaðurinn eða ráðherrann hafi lagt fram fullnægjandi skýringar á atferli sínu.

Við þekkjum þetta. Við getum nefnt mörg dæmi um þetta. Svo er það hinn íslenski kúltúr að valdhafinn þurfi ekkert að standa frammi fyrir einum eða neinum, hvorki dómum né einu eða neinu, fyrr en á kjördag.

Mig langar að biðja hv. þingmann að toga sig aðeins út fyrir efni frumvarpsins. Mér fyndist mjög áhugavert að velta vöngum yfir því hvaða áhrif svona mál hefði á pólitísku umræðuna á Íslandi eða á þessa hefð sem lítur nánast svo á að segja að þú fáir umboð og völd á kjördag og svo þurfi ekki að spyrja eins eða neins fyrr en kemur að næstu kosningum, þá leggir þú verk þín í dóm kjósenda, eins og er iðulega sagt í íslenskri stjórnmálaumræðu. Ef þingmaðurinn vildi velta vöngum yfir þessu með mér.