145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

loftslagsmál.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fá tækifæri til þess að fara yfir þetta mál ef það er enn þá einhver misskilningur um hvað í því felst. En það var enginn slíkur misskilningur á þessum fundi Sameinuðu þjóðanna þar sem allir sem þar voru saman komnir til að ræða hin svokölluðu SDG-markmið gerðu sér fyllilega grein fyrir því við hvað væri átt með þessu 40% markmiði, enda er það vel þekkt, og ég tel nú reyndar að hv. þingmaður þekki það líka vel, og þeir sem hafa gert athugasemd við þetta, við hvað er átt.

Það er átt við sameiginlegt markmið Íslands og annarra EES-landa um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um sem nemur 40% fyrir árið 2030. Það var kynnt hér rækilega 30. júní á þessu ári, ef ég man rétt, að Ísland hygðist taka þátt í þessu og því var orðalagið með þeim hætti að vísa sérstaklega í það að Ísland hefði nýlega lýst því yfir að það ætlaði að taka þátt í þessu 40% markmiði. Þetta misskildi enginn, að ég tel, í New York þó að menn hafi séð tækifæri í því að gera sér upp misskilning hér heima, en það virðist reyndar vera orðinn fastur liður.

Ég man ekki betur en að á sama vettvangi í fyrra hafi ég lýst einhverju yfir — ég man nú ekki einu sinni hvað það var, virðulegur forseti — og sami maður og nú, fyrrnefndur formaður Náttúruverndarsamtakanna, hafi kosið að snúa út úr því á svipaðan hátt og í þessu tilviki.