145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

málefni hælisleitenda.

[15:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi hreinlega endurtekið þau orð sem ég viðhafði 17. september í svari sem ég gaf við fyrri fyrirspurn. Það þarf að koma fram að sá mikli mannfjöldi sem væntanlega verður fluttur á næstunni frá tveimur löndum Evrópusambandsins, þ.e. Ítalíu og Grikklandi, eru allt saman einstaklingar sem hafa ekki fengið neina efnislega meðferð sinna mála. Við getum verið með einstaklinga í kerfinu hjá okkur þar sem efnislegri meðferð mála var lokið í þeim löndum sem þeir koma frá. Þetta er því eðlisólíkt en tvinnast auðvitað saman í þeirri umræðu sem við erum með hér núna því að hún er svo þung. Þetta er samt ekki alveg það sama. Ég tók hins vegar fram áðan og ég ítreka það að ég hef farið fram á að þessir aðilar verði ekki sendir til baka að svo stöddu meðan ráðuneytið er að fara yfir þetta mál og heildarsamhengi hlutanna.

Það væri ekki ábyrgt af minni hálfu að fullyrða neitt um neina hluti fyrr en ég er búin að fá það algjörlega á hreint hvernig í pottinn er búið. Þegar það liggur fyrir get ég miklu skýrar svarað þeirri spurningu sem hv. þingmaður vill fá afdráttarlaust svar við á þessum tímapunkti.

Síðan er mjög vandmeðfarið fyrir mig að ræða hér nákvæmlega um einstök mál. Það eru alls konar atriði þar undir sem erfitt er að ræða í þingsal og ég held að ekki sé heppilegt að við gerum það. Ég ítreka það sem ég sagði, þetta mál er til skoðunar.

Ég vil líka segja enn og aftur að það sem ég hef haft miklar áhyggjur af í allri þessari umræðu hér er að auðvitað er ekki gott að við séum að tala um einstaklinga sem hafa verið á Íslandi í töluvert mörg ár áður en málum er lokið. Það er kannski stærsti veikleikinn sem við stöndum frammi fyrir í okkar íslenska kerfi og mikilvægt að úr því sé bætt, að við séum að hjálpa þeim sem raunverulega (Forseti hringir.) þurfa á þeirri hjálp að halda að það gangi hratt og örugglega fyrir sig.