145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

skipan hæstaréttardómara.

[15:26]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langaði að kalla eftir umræðu hér og svörum frá innanríkisráðherra varðandi skipan hæstaréttardómara við Hæstarétt Íslands þar sem fimm karlmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að skipa skuli enn einn karlmann sem hæstaréttardómara þar sem fyrir eru átta karlmenn og ein kona. Jafnframt kalla ég eftir umræðu um það hvort jafnréttislög eigi við um þessa tilteknu nefnd.

Mig langar að heyra sjónarmið innanríkisráðherra, hvort þetta sé réttur skilningur hjá nefndinni — þó að hún hafi vissulega tiltekið einhver sjónarmið í fjölmiðlum langar mig að kalla þau fram hér á Alþingi — og hvort hún sjái fyrir sér að breyta skipan þessarar nefndar þannig að hún endurspegli betur þann fjölbreytileika sem þessar tvær grunnskiptingar mannkyns bera með sér.

Eins langar mig að óska eftir því — án þess að við þurfum að fara hér í persónulegar vangaveltur um einstaka aðila í þessu máli, þó að auðvitað beri þeir nöfn og kennitölu — að fá að heyra hvort ráðherra hafi tekið sérstaka ákvörðun um að hún ætli að beita sér fyrir því að endurskoða þessa ákvörðun og hún muni þá koma hingað inn á borð þingmanna.