145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

skipan hæstaréttardómara.

[15:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Við erum sammála um það að í Hæstarétt þarf auðvitað að velja þann sem er hæfastur. Ég er sannfærð um að það geta verið umsækjendur af ólíkum kynjum svo að það sé alveg á hreinu.

Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta að öðru leyti en því að ég held að það sé mikilvægt að þessar reglur séu skýrar og það þurfi þá ekki að ræða hvað í þeim felst. Þetta endar alltaf með einhverju mati á einhverju stigi, jafnvel þótt reglurnar séu fullkomnar sem verður aldrei. Það er bara spurning hvar það mat fer fram. Það var alveg eindreginn vilji löggjafans árið 2010 að það mat færi ekki fram af hálfu ráðherra. Það liggur alveg fyrir, þannig er löggjöfin núna. En ég held að þegar verið er að velja svona þá endi það alltaf með því að menn þurfi að hafa svigrúm til einhvers mats.