145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

kostnaður vegna gjaldþrotaskipta.

[15:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er nú sem endranær litlu nær um hvað er á seyði. Það var sagt hér fullum fetum — ég held það hafi verið í maí eða hvort það var komið fram í júní — að málið hefði verið lagt fram í ríkisstjórn og það yrði á þingmálaskrá í haust. Það er ekki komið enn heldur eru þau að hugsa þarna í velferðarráðuneytinu. Ég hef sagt það hér fyrr að það er mikið hugsað í því ráðuneyti en minna gert, því miður.

Það hjálpar ekki fólki sem er í þessum vandræðum að embættismenn og ráðherra leggi höfuðið í bleyti. Þetta fólk þarf að fá einhver svör. Þetta er fólk sem er mjög illa sett. Það þarf þá að koma með aðrar aðgerðir sem gagnast þessu fólki. Hæstv. ráðherra var nú ekki þolinmóð hér fyrir fjórum árum þegar fólkið hafði ekki fengið úrbætur sinna mála. Nú er hún búin að vera við stjórnvölinn í tvö og hálft ár og það gengur ekkert enn.