145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra.

175. mál
[15:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra gegna lykilhlutverki til að tryggja ferðafrelsi þeim sem bundnir eru við hjólastól eða eiga við hreyfihömlun að stríða að öðru leyti. Þessir styrkir hafa rýrnað jafnt og þétt allt frá því á síðustu öld og er það orðið okkur til vansa hversu illa þetta fyrirkomulag er fjármagnað. Styrkir til hreyfihamlaðra vegna bifreiðakaupa voru þó sennilega eitt af því fáa sem hækkaði hér eftir hrun, hærri styrkurinn úr 1 millj. kr. í 1,2 millj. kr. og sýnir kannski hversu aðkallandi og brýnn vandinn var að við það neyðarástand sem hér var í opinberum fjármálum strax eftir hrun ákváðu menn þó að lyfta þeim styrk eilítið.

Staðan er núna sú að lægri styrkurinn til bifreiðakaupa sem hreyfihamlaðir fá, m.a. vegna þess að þeir þurfa iðulega að festa kaup á dýrari útgáfum af bílum og leggja í meiri kostnað að þessu leyti, nemur 300 þús. kr. Hann nam líka 300 þús. kr. á síðustu öld. Hann hefur einfaldlega ekkert hækkað að krónutölu í hátt í 20 ár. Það er náttúrlega engum öðrum hópi boðið upp á það að slíkar fjárhæðir taki ekki verðlagsbreytingum. Allt tekur verðlagsbreytingum í kerfi hins opinbera, allar bætur og styrkir, greiðslur og niðurgreiðslur, allt er þetta fært upp eftir verðlagi frá ári til árs nema þessir styrkir, bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er enginn sómi að því fyrir þingið að þessi styrkur sérstaklega sé ekki verðbættur eins og aðrir.

Hærri styrkurinn var 1 millj. kr. á síðustu öld, fyrir árið 2000. Hann var síðan, eins og ég nefndi áðan, hækkaður í 1,2 millj. kr. vegna þess að þetta þótti orðið svo skammarlega lágt 2009 og menn væntu þess auðvitað að þegar betur færi að ára í ríkissjóði þá mundu menn taka til óspilltra málanna við að auka aftur þennan stuðning. Þó að framlagið hafi verið hækkað úr 1 millj. kr. í 1,2 millj. kr. þá er það sennilega nær lagi að verðlag hafi tvöfaldast á þessum tíma og þess vegna gerir þessi litla hækkun ekki mikið til að rétta hlut hreyfihamlaðra að þessu leytinu til.

Ég batt vissar vonir við það að ráðherra skipaði hér starfshóp til að yfirfara þessa styrki í janúar 2014 en nú eru að koma jól 2015 og mér virðist að af fjárlagafrumvarpinu megi ráða að ekkert sé verið að auka í þessa styrki heldur þvert á móti að minnka framlög til þessa liðar á fjárlögum, a.m.k. að því er mér sýnist, um 50 millj. kr. á milli ára. Það kann að snúa að uppbótunum og einhverjum tekjutengingum í því en tillögur starfshópsins, sem ráðherrann sjálfur skipaði, voru ákaflega góðar, held ég. Þær voru um það að leiðrétta að hluta þessa rýrnun, taka þessa styrki upp um helming. Það væri kostnaður upp á liðlega 200 millj. kr. fyrir ríkissjóð á lið sem ekkert hefur hækkað í allan þennan tíma.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna sér þessa ekki stað í fjárlagafrumvarpinu sem fram er komið?