145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra.

175. mál
[15:42]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um hvort ég hyggist beita mér fyrir hækkun fjárhæða bifreiðastyrkja til hreyfihamlaðra í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun bifreiðamála hreyfihamlaðra. Í skýrslu starfshópsins, sem hv. þingmaður fór einmitt í gegnum í ræðu sinni, komu fram ýmsar tillögur sem ég tel allrar athygli verðar og lúta ekki eingöngu að hækkun styrkja í málaflokknum. Þar eru til dæmis á ferð hugmyndir um breytingar á stjórnsýslu í málaflokknum og ákvæði laga um styrki til mikið hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa og að styrkir vegna kaupa á stórum og breyttum bílum færist í lög um Sjúkratryggingar og að sjúkratryggingastofnun annist framkvæmd þeirra.

Einnig er lagt til að teknir verði upp svokallaðir samgöngustyrkir sem greiðist öllum þeim sem metnir hafa verið hreyfihamlaðir óháð bifreiðaeign og komi þeir í stað uppbóta vegna reksturs bifreiðar hreyfihamlaðra einstaklinga. Rökin fyrir þeirri breytingu eru þau að þeir einstaklingar sem metnir eru hreyfihamlaðir en eiga ekki bíla fái ekki stuðning frá ríkinu til að mæta aukakostnaði vegna hreyfihömlunar sinnar. Margar af þessum tillögum krefjast talsverðs undirbúnings enda er hér um að ræða mikilvæga hagsmuni þessa fólks eins og þingmaðurinn ræddi hér.

Ef ætlunin er að flytja hluta málaflokksins til sjúkratryggingastofnunar þarf það að vera gert í samráði við heilbrigðisráðherra og stofnunina sjálfa og í skýrslu starfshópsins er líka vikið talsvert að auknu samspili milli Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands, til dæmis þegar kemur að vali á bifreið fyrir hreyfihamlaða einstaklinga til að tryggja að bifreiðin henti fyrir hjálpartæki sem viðkomandi notar eða þann búnað sem setja þarf í bifreiðina. Þetta tel ég vera hægt að gera án lagabreytinga en mun styðja það mál og beita mér fyrir nauðsynlegum breytingum á gildandi reglugerð þar að lútandi.

Hvað varðar það sem er megininnihald fyrirspurnar þingmannsins, varðandi mögulega hækkun uppbótarstyrkja, þá lagði starfshópurinn til 50% hækkun þeirra og að auki yrði greidd sérstök eingreiðsla til þeirra sem fá stuðning í fyrsta sinn vegna bifreiðakaupa. Þetta er auðvitað mikil hækkun og ljóst er að ekki er fyrir hendi fjárheimild fyrir slíkri hækkun núna né í fjárlagafrumvarpinu.

Einnig ber að hafa í huga að í tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir því að samhliða hækkun styrkjanna verði tíminn sem þarf að líða á milli styrkveitinga, sem er nú fimm ár, lengdur í sex til átta ár eftir tegund styrkja. Þetta var hugsað til að koma til móts við kostnað. Ég hef því ákveðið að tímalengd milli styrkveitinga verði óbreytt fyrst um sinn, þ.e. fimm ár, en mun beita mér fyrir því að fjármagn fáist til að hækka uppbætur og styrki til bifreiðakaupa um 20% þegar á þessu ári. Ég tel að þannig verði komið að talsverðu leyti til móts við þær tillögur sem fram koma í skýrslunni enda er þar lýst skilningi á því að fjármagni sem veitt er til málaflokksins eru takmörk sett og ekki er raunhæft að ætlast til þess að allar tillögurnar komi til framkvæmda á einu bretti.