145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra.

175. mál
[15:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þær tillögur starfshóps sem hér er vitnað í varða það að auka möguleika allra til þátttöku í samfélaginu. Þetta er fjársveltur málaflokkur og hv. þm. Helgi Hjörvar fór ágætlega yfir að bætt var lítillega inn í hann en það er langt frá því að nóg sé. Nú lýsir hæstv. ráðherra því yfir að hún muni beita sér fyrir 20% hækkun, en það er ekki í fjárlagafrumvarpinu. Ég spyr því: Mun sú hækkun koma fram á milli umræðna?

Þá vil ég benda á að þær breytingar sem voru lagðar til í tillögunum kosta 210 milljónir. Hæstv. ráðherra segir okkur ekki hafa efni á því, nei, því að við þurfum að lækka skatta. Þetta er eitt gott dæmi um það hverjir borga fyrir þær skattalækkanir. Það er skammarlegt að félags- og húsnæðismálaráðherra skuli ekki beita sér af meiri hörku í málaflokknum heldur segi okkur hér að það sé ekki hægt vegna peningaskorts. Það skortir ekki peninga heldur pólitíska forgangsröðun.