145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

notkun dróna.

136. mál
[16:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg hárrétt að öll svona lagasetning er ekki frumlegri en svo að hún finnur ekki upp á neinu sérstöku í tækniframförum. Það er alltaf þannig að kerfið lallar einhvern veginn á eftir, en hugmyndasmiðirnir ganga fremstir í flokki. Ég tek það bara með mér sem hér hefur komið fram.

Ég vil segja það, sem kannski er til marks um það að maður er nú sjálfur mjög vanþroskaður þegar kemur að umræðu um þetta mál, að ég hef skoðað þessa reglugerð en treysti mér ekki til þess að kveða upp úr um það hvort þetta ákvæði eigi að vera inni eða eitthvað annað. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að almenningur sjái þetta, að við bara sýnum öllum þetta, bæði þeim sem hafa áhuga á þessu máli sem eru alls konar aðilar, einkaaðilar og aðrir, og eins í almenna kynningu.

Af því að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir nefndi sérstaklega fatlað fólk þá var ég einmitt spurð að því fyrr í dag hvort það væri eitthvað um það í þessari reglugerð. Mig minnir að svo sé ekki. Ég ætla samt sem áður að láta hana koma fram eins og hún er. Ég geri þá ráð fyrir því að ég fái ábendingar um að líta þurfi til slíkra þátta og þá verður það gert. Ég sé enga ástæðu til að bíða með að sýna þessi drög, síðan geta menn haft sjálfstæða skoðun á því hvernig gengið verður fram í þessu máli. Ég held að við eigum að taka örugg skref, ekki ganga lengra en nauðsynlegt er, huga mjög vel að friðhelgissjónarmiðum og að sjálfsögðu öryggissjónarmiðum en passa upp á að regluverkið verði ekki hamlandi fyrir bæði einstaklinga og atvinnulíf. Það viljum við ekki.