145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

forritun sem hluti af skyldunámi.

127. mál
[16:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til máls sem hefur aðeins verið í umræðunni upp á síðkastið, að forritun verði hluti af skyldunámi íslenskra barna. Þetta mál horfir nú þannig við að ég held að við séum öll mjög meðvituð í þessum sal, ekki síst þegar við erum nýbúin að ræða notkun flygilda og dróna í almennu atvinnulífi og samfélagi, að tæknilæsi er að verða æ mikilvægari þáttur í samfélaginu. Mér er það minnisstætt þegar ég sat ráðstefnu um menntamál með öðrum ráðherrum OECD-ríkjanna þar sem rætt var að það besta sem væri hægt að gera þegar kæmi að menntunarmálum í þróunarsamvinnu væri að afhenda börnunum gamlan vélbúnað og kenna þeim að forrita hann upp á nýtt til að gera þau sjálfbær þannig að þau væru ekki bara móttakendur að nýrri tækni sem kemur með reglubundnu millibili heldur gætu hjálpað sér sjálf til að móta þá nýju tækni. Það sem rann í gegnum huga minn var að líklega ætti þetta ekki bara við um þá sem búa í þróunarríkjum heldur ekki síður okkur sem búum hér í því sem stundum eru kölluð þróuð ríki. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli að gera okkur sjálfstæðari og auka þekkingu okkar á þeirri tækni sem umlykur okkur í öllu okkar daglega lífi.

Forritun er hluti af til að mynda aðalnámskrá í grunnskólum, þ.e. hluti af tæknimennt, en það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort það sé ástæða til að gera þessu fagi hærra undir höfði þannig að það fái meira vægi. Það er hluti af námskrá í tæknimennt sem allir þurfa að taka á einhverju stigi, en er ástæða til að gera þessu fagi hærra undir höfði og tengja það að einhverju leyti þeirri umræðu um læsi sem hæstv. ráðherra hefur orðið tíðrætt um upp á síðkastið? Læsi snýst líka um að vera læs á nútímatækni. Við erum að horfa á það að æ fleiri gjörðir daglegs lífs snúast um samskipti okkar við tæki og tól. Það skiptir miklu máli að þau samskipti geti farið fram á móðurmálinu og það skiptir máli að við kunnum með þessi samskipti að fara. Það er ekki endilega svo og það er ekki endilega stór hluti af okkar ágæta skólakerfi og ágætu menntum sem við fáum þar sem fer í að kenna okkur að umgangast tæknina og ræða hana.

Þess vegna spyr ég um forritun sérstaklega en ef hæstv. ráðherra hefur tíma til að ræða málin væri líka áhugavert að heyra um heildarsýn hans í þessum málum. Það er mitt mat að einmitt það hversu áberandi og umfangsmikil tæknin er orðin í okkar daglega lífi geri það að verkum að það væri mikilvægt að allir fengju undirstöðu í vísindaheimspeki og vísindalæsi, þ.e. tæknilæsi, þannig að við áttum okkur betur á þeim möguleikum sem felast í tækninni en líka hvernig við (Forseti hringir.) eigum svo með hana að fara.