145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

forritun sem hluti af skyldunámi.

127. mál
[16:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vek jafnframt á því athygli að þann 17. september sl. var forritunarkennsla í grunnskólum til umræðu á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Tildrög þess voru þau að hv. þm. Brynhildur S. Björnsdóttir beindi til mín fyrirspurn í tilefni þess að þá var lögð fram af hálfu hv. þingmanna Bjartrar framtíðar þingsályktunartillaga um þetta mál, þ.e. forritunarkennslu í grunnskólum. Við það tilefni sagði ég að það væri verulegt vandamál í skólakerfinu að nemendur ættu það til að velja sig kerfisbundið frá raun- og tæknigreinum og það val hefur síðan áhrif á samsetningu náms á háskólastigi hér á landi vegna þess að það nám er að talsverðu leyti drifið áfram af eftirspurn nemenda. Þetta veldur mér áhyggjum og þessu þarf að breyta. Það er afar mikilvægt að nemendur fái strax í grunnskóla tækifæri á að spreyta sig í viðfangsefnum á sviði tækni, upplýsinga og vísindagreina því að tryggja þarf á hverjum tíma að skólakerfið undirbúi nemendur vel fyrir framtíðina. Þetta er meðal annars ein af ástæðunum fyrir mikilli áherslu á læsi sem ég tala fyrir því að við vitum að læsi styður við allt annað nám. Ég sagði einnig við sama tækifæri að ég mundi skoða það mjög vel hvort, hvernig og með hvaða hætti við skyldum skoða forritunarkennslu í grunnskólum.

Við gerð aðalnámskrár grunnskóla sem kom út árið 2011 var bent á mikilvægi þess að forritun yrði skylda í grunnskóla og var brugðist við því. Eins og í fyrri aðalnámskrá er upplýsinga- og tæknimennt skilgreind sem sérstakt námssvið en með því er tryggt að nemendur hafi rétt á lágmarkstímamagni í skólagöngu sinni á því sviði. Sérstök hæfniviðmið eru sett fram innan upplýsinga- og tæknimenntar og í þeim er að finna svohljóðandi viðmið, með leyfi virðulegs forseta:

„Við lok 10. bekkjar getur nemandi nýtt hugbúnað við forritun og miðlun þekkingar á fjölbreyttan og skapandi hátt.“

Hér er því kveðið á um að við lok grunnskóla eigi nemendur að hafa hæfni til að geta forritað. Jafnframt er á mörgum stöðum talað um að nemendur eigi við lok grunnskóla að geta notað mismunandi forrit, t.d. við hljóð- og myndvinnslu, uppsetningu ritgerða og við vefsmíðar. Svarið við spurningunni „Telur ráðherra að forritun eigi að vera hluti af skyldunámi íslenskra barna?“ er því: Já, námið er nú þegar samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla hluti af skyldunámi íslenskra barna.

Ég er þeirrar skoðunar að forritun gegni mikilvægu hlutverki í skyldunámi nemenda og sé einn þáttur af mörgum á sviði upplýsinga- og tæknimenntunar. Það er mikilvægt að nemendur læri að vinna á tölvur en ekki síður að vinna með tölvur. Ef til vill er þörf á að skerpa á mikilvægi hennar í aðalnámskrá grunnskóla og það mun ég skoða en ég tel þó, eins og áður hefur komið fram, að aðalnámskráin kveði nú þegar á um hvaða hæfni nemendur eigi að hafa haft tækifæri á að öðlast á sviði upplýsinga- og tæknimenntunar við lok grunnskóla.

Útfærslan á kennslunni sjálfri er hins vegar í höndum kennara og skólanna sjálfra eins og vera ber.

Þá vil ég að lokum nefna að forritun kom fyrst inn í greinahluta aðalnámskrár grunnskóla vorið 2013 og að gert er ráð fyrir að skólar hafi þrjú ár til að innleiða aðalnámskrána. Ráðuneytið hefur síðustu tvö árin styrkt sjóðinn „Forritarar framtíðarinnar“ sem hefur það hlutverk að efla forritun og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum, m.a. með því að standa fyrir forritunarnámskeiðum, tækjavæða skóla, efla þjálfun og endurmenntun kennara.

Virðulegi forseti. Ég hef smátíma aflögu og úr því að beint var til mín spurningu um heildarhugsun með þetta vil ég segja að ég tel að það sé búið að koma þessu ágætlega fyrir í þeirri námskrá sem er unnið eftir. Vitanlega er alltaf álitamál á hverjum tíma hversu stórum hluta af tíma nemendanna skuli varið í einstök fög. Gangi eftir þau markmið og þær fyrirætlanir sem eru í námskránni ásamt því sem er í ágætri þingsályktunartillögu sem hv. þingmenn Bjartrar framtíðar lögðu fram og var hér til umræðu fyrir nokkrum dögum, sem kallar á að við leggjum sérstaka áherslu á þetta mál, tel ég að við séum í öllum færum með að gera þetta vel. Ég held að við höfum góð tækifæri til þess. Tæknistigið almennt er hátt í skólunum og áhugi krakkanna á þessu sviði mikill.

Hvað varðar síðan tölvulæsi og alls konar annað læsi langar mig að segja að ég amast ekki við því að það hugtak sé notað en stundum finnst mér menn nota orðið læsi nokkuð víðfeðmt þegar skilningur er raunverulega það sem um er að ræða, þ.e. að hafa skilning á viðfangsefninu. Menn mega kalla þann skilning læsi. Er það náttúrulæsi að hafa skilning á náttúrunni? Er skilningur á tölvum og tölvutækni tölvulæsi? Þetta er allt saman eitthvert álitamál. Menn þurfa þó að mínu mati að gæta sín á því að hugtök missi ekki algjörlega merkingu. Ég er ekki þeirrar skoðunar að læsi eigi bara að skilgreina mjög þröngt en vil þó vara við því að það sé notað um alla hluti þar sem orðið skilningur getur vel komið í staðinn.

Það er mjög mikilvægt að hafa einmitt góðan skilning og góða færni á sviði upplýsingatækni, að geta skilið upplýsingar, unnið með þær og síðan umbreytt þeim. Það er (Forseti hringir.) lykilatriði og skiptir miklu máli fyrir getu ungmenna okkar og krakka til að takast á við þau verkefni sem bíða.