145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

forritun sem hluti af skyldunámi.

127. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra, eins og raunar í upphafi míns máls líka, að gert er ráð fyrir þessari kennslu í aðalnámskrá. Þegar þessi mál eru rædd finnst manni stundum eins og það eigi að leysa öll mál með því að setja bara meira inn í aðalnámskrá. Ég er ekki endilega sannfærð um það, hins vegar tel ég að það þurfi að fara í aukna vinnu við að innleiða að þessum markmiðum sé fylgt, bara svo ég segi það. Þetta kallar á símenntun kennara, aukið námsefni og að þetta sé gert sem aðgengilegast fyrir börnin þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í því.

Eins og ég segi leysast málin ekki endilega með því að skrifa hlutina á blað og setja þá inn í stefnuna heldur hvernig við innleiðum það sem sett hefur verið niður á blað. Ég er viss um að það er mikil jákvæðni gagnvart því að vinna að þessu máli í skólasamfélaginu. Eins og ég nefndi áðan eru rökin þung og þau snúast auðvitað um það hvernig líf okkar mótast í auknum mæli af tækni sem skiptir máli að við höfum tök á og að við sem flest höfum tök á. Eitt sjónarmið sem skiptir máli í því er að oft eru karlmenn í miklum meiri hluta þeirra sem hafa náð tökum á þessari grein. Það vekur athygli þegar konur ná miklum árangri innan tölvu- og forritunargeirans. Þarna ættum við að huga að því að konur verði ekki síður vígar en karlar.

Hæstv. ráðherra hefur orðið tíðrætt um lestrarkunnáttu drengja sem er annað atriði sem þyrfti að skoða sérstaklega með tilliti til jafnréttis kynjanna.

Ég ætla ekki að fara í umræðu á þessum stutta tíma um hvort við notum orðið skilning eða læsi en hvernig sem við horfum á málið, hvort orðið sem við veljum að nota, held ég að við þurfum aukna þekkingu, aukinn skilning og aukið læsi á tækni almennt, hvernig við nýtum hana og hvernig við eigum að umgangast hana. Við sjáum mjög hraðar tækniframfarir um þessar mundir þar sem ég tel, eins og áður hefur komið fram í dag, að stjórnsýslan og löggjafinn fylgi að sumu leyti ekki þessari hröðu þróun. Það er mikilvægt að í skólamálum ölum við upp kynslóðir sem eru einmitt færar um að taka þessi völd í sínar eigin hendur og hafi nauðsynlega þekkingu, skilning, læsi — hvað sem við köllum það — til að taka þau völd.