145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

forritun sem hluti af skyldunámi.

127. mál
[16:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður hefur bent á, eitt er að skrifa inn í aðalnámskrá ákveðnar áherslur og annað hvernig tekst að innleiða þær inn í skólakerfið sjálft. Þar skiptir miklu máli hvernig tekst til í skólastofunni, áhugi kennara, þekking þeirra og kunnátta. Þess vegna get ég tekið undir með hv. þingmanni, fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, (Gripið fram í.) sem einmitt hafði forgöngu um þá námskrá sem er verið að vinna með, að endurmenntun kennara skiptir máli. Ég held að sérstaklega í þessu máli þurfi að huga að því.

Þegar við horfum til þessara þátta í aðalnámskránni, þ.e. sem snúa að upplýsinga- og tæknimenntun almennt, þarf kannski að velta fyrir sér því tímamagni sem ætlað var í þá námskrá árið 2011, 2,68% af heildartímafjöldanum. Þá má velta fyrir sér hvort það tímamagn endurspegli það mikilvægi sem hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. ráðherra, hefur verið að benda á hvað varðar mikilvægi þessara þátta. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er mjög mikilvægt. Það sem ég mun gera í kjölfar þeirrar þingsályktunartillögu sem hv. þingmenn Bjartrar framtíðar lögðu hér fram og var rædd fyrir nokkru er að skoða hvaða tíma við ætlum til þessarar kennslu. Í ljósi þeirrar áherslu sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi áðan má velta fyrir sér hvort þetta sé nægur tími í heildina. Ég ætla ekki að kveða upp úr um það hér en ég tel að minnsta kosti vert að skoða það.

Ég vek líka athygli á því sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, ráðuneytið hefur á síðustu tveimur árum styrkt sérstaklega sjóðinn „Forritarar framtíðarinnar“ sem hefur það sérstaka hlutverk að efla forritun og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum. Hluti af innleiðingunni er að vekja athygli (Forseti hringir.) nemendanna á þessu með því meðal annars að styrkja þennan sjóð.