145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

fjárhagslegur stuðningur við öryrkja í framhaldsskólanámi.

129. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta er nefnilega alveg rétt, það sem hann endaði á að segja, málið snýst svolítið um forgangsröðun fjármuna. Ég er sammála honum í því að samþætting milli þessara málaflokka sé orðin afskaplega brýn, sú samræða. Mér dettur strax í hug eitt mál sem við tökum til umræðu á hverju einasta ári og heitir Hlíðaskóli á Akureyri. Það er akkúrat dæmi um þetta.

Við erum að tala um fólk sem er jafnvel orðið tvítugt eða 25 ára, svo að við tökum það upp aftur. Þetta fólk hefur kannski á einhverjum tímapunkti flosnað upp úr skóla vegna vandkvæða á yngri árum og er að reyna að koma inn aftur en treystir sér ekki til þess. Eins og ég sagði áðan skortir það bæði kjarkinn til þess að fara af stað aftur og svo er það kostnaðurinn. Ég hef fengið fyrirspurnir og símtöl frá fólki sem treystir sér hreinlega ekki til að greiða fyrir þetta nám vegna þess að fjarnámið kostar mun meira hjá flestum skólum, ég held að það fari í minnst um 30.000 kr. hjá Fjarmenntaskólanum en annars er kostnaðurinn mismunandi milli skóla.

Ég er fyrst og fremst að hugsa þetta út frá þeim hópi. Ég vann við starfsbraut og þekki þann stuðning sem ráðherra rakti og allt það en ég er meira að hugsa um þá aðila sem vilja komast út á vinnumarkaðinn aftur en vilja auðvitað sækja sér menntun fyrst til að komast upp úr ákveðnu fari og sjá sér ekki fært að gera það vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar.