145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

hæfnispróf í framhaldsskólum.

155. mál
[16:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Fyrst vegna síðustu orða hv. þingmanns um að vera að loka framhaldsskólum fyrir unga fólkinu í landinu vil ég vísa til laga um framhaldsskólann frá 2008 þar sem skýrt er kveðið á um að öll börn 16 ára til 18 ára eiga rétt á framhaldsskólamenntun. Það er því aldrei svo að með einhverjum hætti sé hægt að takmarka það enda stendur það ekki til, væri auðvitað fráleitt.

Fyrst sú spurning hvaða greining liggi til grundvallar þeirri ákvörðun að hefja undirbúning að gerð hæfnisprófa inn í framhaldsskólann. Nú vil ég taka fram, virðulegi forseti, að mér þykir spurningin bera þess nokkur merki að hér gefi menn sér ákveðnar forsendur í umræðunni og spyrji síðan út frá þeim. Ég vil þó nota tækifærið og nefna áður en ég svara henni að allt þetta mál á sér nokkur tildrög. Árið 2011 var almennur hluti af námskrá grunnskóla gefinn út. Þar er kveðið á um bókstafseinkunnir og nýtt matskerfi. Það fylgdi raunverulega þeirri ákvörðun sem var tekin 2011 um nýju aðalnámskrána. Síðan hefur verið í gangi innleiðingarferli og samráð um þessi nýju próf. Það sem þarf að hafa í huga er að með þeirri ákvörðun sem var tekin 2011 um hæfniviðmiðin var búið að taka ákvörðun um breytingar á prófunum. Það þarf að aðlaga prófin þessari nýju nálgun aðalnámskrárinnar, bæði hvað varðar matskerfið sjálft og hvaða atriði við ætlum að mæla o.s.frv. Það er sú umræða sem er hér á ferðinni varðandi hæfnispróf.

Menntamálastofnun hefur því ekki verið falið það verkefni með einhverjum beinum hætti að gera hæfnispróf inn í framhaldsskólann, það er bara ekki þannig. Það hefur aftur á móti komið fram umræða um þetta, það þarf að breyta þessum prófum og verið er að skoða akkúrat þann þátt málsins. Ég hef sagt að ég hlusta auðvitað á allar þær athugasemdir sem koma m.a. frá skólameisturunum sem hafa haft áhyggjur af því að matskerfið sem var þróað upp úr árunum 2011 veiti kannski ekki nægjanlegar upplýsingar fyrir þá til þess að taka inn í skólana. Ég vil taka fram að örfáir skólar eru í þeirri stöðu. Þá er sjálfsagt að skoða það hvort einhverjir möguleikar séu til að verða við sérstökum óskum þeirra. Þeim hefur ekki verið falið að búa til hæfnispróf sem inntökupróf inn í framhaldsskólana, þannig að það sé alveg á hreinu.

Þess vegna er svarið við annarri spurningu hv. þingmanns um samráð við Skólameistarafélag Íslands og Félag framhaldsskólakennara um þessa ákvörðun einfalt: Þar sem þessi ákvörðun hefur ekki verið tekið hefur ekki verið haft neitt samráð.

Hvað varðar viðbrögð formanns Skólameistarafélagsins þá eru þau skiljanleg í ljósi þeirrar umfjöllunar sem hefur orðið í fjölmiðlunum. Við munum fara rækilega yfir þessi mál með skólameisturum. En hvað varðar óstöðugleika í framhaldsskólanum þá vil ég bara taka það fram, virðulegi forseti, að fyrir rúmu ári síðan voru kynnt aðgangsviðmið fyrir framhaldsskólana sem allar deildir háskólanna höfðu skilgreint. Þetta skiptir verulega miklu máli því þegar kemur að styttingunni og hvernig menn hafa verið að vinna hana þá eru auðvitað þau aðgangsviðmið lögð til grundvallar til þess að geta skipulagt þetta þriggja ára nám. Þessi viðmið hafa nýst vel og mikill meiri hluti skólanna er búinn að stytta hjá sér stúdentsbrautirnar og það verkefni hefur gengið mjög vel.

Sú umræða hér sem við erum að tala um mun ekkert snerta þá vinnu. Enn og aftur, allir krakkar á Íslandi, öll ungmenni 16 ára sem ljúka grunnskólaprófi fara ef þau vilja í framhaldsskólann. Það er reyndar þannig að 98–99% af börnunum gera það, engin breyting verður á því. Það er því að mínu mati ofsögum sagt að við búum við sérstakan óstöðugleika í sambandi við styttinguna, enda voru þegar komnir nokkrir skólar sem höfðu verið með slíkt prógramm gangandi í nokkur ár, sumir hverjir, þannig að það var komin ágætisreynsla á þann þáttinn.

Virðulegi forseti. Svo vil ég segja um það að hafa afskipti af skólakerfinu. Jú, ég get svo sem alveg viðurkennt það, ég geri það, en ég tel að það sé ástæða til. Það er ástæða til að hafa afskipti af skólakerfinu á Íslandi sem er í þeirri stöðu að 30% drengja og 12% stúlkna geta ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. 27 til 28% nemendanna upp úr grunnskóla skrá sig í almennt nám í framhaldsskólanum og afdrif þeirra eru þau að 70% af þeim hópi er ekki búinn að ljúka námi þegar þau eru 22 ára, einhver lélegasta námsframvinda innan OECD á framhaldsskólastiginu sem endar í því að meðalaldur BS-, BA-gráða frá Íslandi er 30,6 ár sem er sá hæsti sem þekkist, sem þýðir það að meðaltali eru Íslendingar styst á vinnumarkaði með menntun.

Já, virðulegi (Forseti hringir.) forseti. Það er ástæða til þess að grípa til aðgerða.