145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

hæfnispróf í framhaldsskólum.

155. mál
[16:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir fyrirspurnina og fyrir að vekja máls á þessum þætti þeirra breytinga sem yfir standa á framhaldsskólakerfinu sem hæstv. menntamálaráðherra hefur ráðist í og boðað án þess að eiga um það fullnægjandi samráð við þingið. Hann hefur ekki lagt upp neina framhaldsskólastefnu til umræðu hér í þinginu.

Víða í skólakerfinu og í grunnskólakerfinu líka heyrir maður verulegar áhyggjur af því að verið sé að búa til nýtt kerfi inngangsprófa í framhaldsskóla til þess fyrst og fremst að þjóna örfáum skólum sem vilja mismuna nemendum á grundvelli hrárra þekkingarviðmiða en án þess að (Forseti hringir.) einhver heildstæð hugmynd liggi þar að baki um námsmat.

Maður hlýtur að spyrja sig, virðulegi forseti — það var eitthvert ólag á klukkunni, ég fékk bara 40 sekúndur í þessa ræðu og því bið ég um að forseti sýni biðlund og leyfi mér að ljúka hugsuninni og segja: Það hlýtur að vera umhugsunarefni að við séum búin að þróa hér eitthvert kerfi þar sem samræmd próf duga ekki lengur til þess að gefa (Forseti hringir.) glögga mynd af getu nemenda. Þá þarf að búa til nýtt kerfi inntökuprófa. Við erum annars vegar með grunnskóla sem á að byggja á símati og hins vegar er stöðugt verið að finna ný og ný próf til að sannreyna þekkingu nemenda sem (Forseti hringir.) er stöðugt verið að meta með símati.