145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

hæfnispróf í framhaldsskólum.

155. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu. Hann flæmist nú nokkuð undan því að tekin hafi verið ákvörðun um að setja fram þróað hæfnispróf, en þó vísar hann í breytingar á einkunnagjöf við lok 10. bekkjar sem ástæðu fyrir því að fara þurfi í einhvers konar hæfnispróf. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að tala skýrar í þessu efni: Hvað er það sem stendur til að gera með þessi hæfnispróf og hvaða greining liggur að baki? Er um að ræða algjörlega miðlæga kröfu aftur og aftur til hæstv. ráðherra sem gengur fyrst og fremst fram með eina möntru, liggur mér við að segja.

Það er ástæða til að grípa til aðgerða, segir hæstv. ráðherra hér ítrekað. Svo koma þessi tölulegu viðmið um læsi drengja, læsi stúlkna, um það hvað fólk getur þegar það er 30 ára og þegar það er þetta og hitt á Íslandi. Svo segir ráðherrann: Það er ástæða til að grípa til aðgerða.

Hvaða greining liggur til grundvallar því að ráðherrann kemst að þessum tilteknu niðurstöðum um þessar aðgerðir? Af hverju þarf að fara í þessar aðgerðir?

Ég verð að segja, virðulegi forseti: Ég hef miklar efasemdir um að hæstv. ráðherra sé að fara fram á grundvelli greininga og þekkingar þegar hann segir hér í ræðustóli Alþingis að góð reynsla sé af styttingu framhaldsskólans. Hvar eru þau gögn? Liggja þau einhvers staðar fyrir? Er góð reynsla af því og hvenær kom sú reynsla fram? Hvenær byrjaði það? Gerðist það bara núna í fyrradag? Hvenær kom þessi góða reynsla fram, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) af því að stytta framhaldsskólann einhliða og ítrekað að leita leiða í gegnum miðstýringu, mælingar, próf og skimanir og gamaldags skilning (Forseti hringir.) á því um hvað skólastarf snýst?