145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Tilefni þess að frumvarpið er lagt fram er að á undanförnum vikum og mánuðum hafa komið í ljós nokkur atriði sem æskilegt er talið að skýra betur og einfalda í íslenskri löggjöf og lúta að nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Með frumvarpinu er ekki verið að leggja til breytingar á þeirri áætlun sem stjórnvöld kynntu í sumar um losun fjármagnshafta. Þvert á móti er með frumvarpinu verið að styrkja þá áætlun og stuðla frekar að því að losun hafta nái fram að ganga í samræmi við hana.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lögð til breyting vegna skattlagningar vaxta af skuldabréfum sem slitabúin gefa út í eigin nafni sem lið í fullnustu nauðasamnings við kröfuhafa sína. Nánar tiltekið er lagt til að allir vextir af slíkum skuldabréfum, þar með talið afföll, verði undanþegnir tekjuskatti í hendi raunverulegs eiganda skuldabréfs sem ekki ber ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Í breytingunni felst einnig að staðgreiðsluskyldu er létt af þessum tekjum. Breytingin kemur fyrst og fremst til af tæknilegum ástæðum þar sem þær upplýsingar liggja fyrir að stærstu félögin sem annast utanumhald og uppgjör vegna útgáfu skuldabréfa í Evrópu munu ekki taka við þessum skuldabréfum til skráningar og umsýslu vegna gildandi ákvæða í íslenskum skattalögum.

Í öðru lagi er lögð til breyting er lýtur að afmörkun skattskyldu samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Þessi skattur hefur í daglegu tali verið kallaður bankaskattur. Í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta er miðað við að slitabúin verði leyst undan skyldu til að greiða bankaskatt ef þau greiða stöðugleikaframlag eða stöðugleikaskatt. Þessi áform stjórnvalda koma þó ekki fram í lögum um bankaskattinn. Í frumvarpinu er því lagt til að úr þessu verði bætt og skýrlega kveðið á um að skattskylda þessara aðila falli niður að fenginni endanlegri staðfestingu dómstóla á nauðasamningi. Slitabú sem öðlast slíka staðfestingu fyrir næstu áramót munu þá losna undan skyldu til að greiða bankaskatt á árinu 2016. Sama slitabú greiðir heldur ekki stöðugleikaskatt á árinu 2016 enda hafi stöðugleikaframlag þá verið innt af hendi.

Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Áður en ég kem að því vil ég vekja sérstaka athygli á þeim kafla í greinargerð með frumvarpinu sem fjallar um áhrif þeirrar breytingar sem ég rakti um brottfall bankaskattsins og samhengi við ríkisfjármálin, þ.e. að við höfum frá upphafi gert ráð fyrir að bankaskatturinn mundi annaðhvort fjara út eða á einhverjum tímapunkti falla niður, eins og við erum að boða að geti gerst við þessi skilyrði. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á ríkisfjármálaáætlunina þótt ekki sé horft nema bara til frumvarpsins fyrir árið 2016, þ.e. gert er ráð fyrir því á tekjuhlið fjárlaganna að bankaskatturinn skili sér á næsta ári, en að því marki sem þessir atburðir geta haft áhrif á greiðslu bankaskatts á næsta ári þá hefur ávallt verið gert ráð fyrir að við mundum á ákveðinn hátt vinna okkur upp það tekjutap með stöðugleikaframlaginu eða stöðugleikaskattinum eftir atvikum. Ég vísa í það sem segir um þetta í greinargerð með frumvarpinu. Niðurstaðan er í raun og veru sú samkvæmt þessu að það er annað sem kemur í staðinn.

Eins og ég rakti hér rétt áðan eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Ég ætla að koma að því núna. Fyrsta breytingin varðar það tímamark sem slitameðferð telst lokið með nauðasamningi. Lagaákvæði sem að því lýtur hefur valdið vafa við túlkun. Er því lagt til að úr því verði bætt og skýrt kveðið á um hvenær slitum telst lokið með nauðasamningi. Önnur breytingin varðar hlutfall atkvæðamagns sem þarf til að samþykkja nauðasamning. Gerð var breyting á þeirri reglu á vorþingi með lögum nr. 59/2015. Þá var bætt við 90% þaki á atkvæðamagn eftir fjárhæðum til að koma til móts við minni slitabú. Það felur í sér að nægilegt er að 90% kröfuhafa samþykki samninginn eftir fjárhæðum. Í frumvarpinu er lagt til að umrætt þak verði nú lækkað niður í 85% til að koma til móts við áhyggjur af því að nægjanlegur fjöldi kröfuhafa muni ekki koma á fund til að greiða atkvæði um nauðasamninginn. Áhyggjurnar stafa meðal annars af því að margir kröfuhafar hafa fengið samþykktar kröfur í búin en ekkert hefur heyrst í þeim síðan.

Rétt er að nefna að þúsundir kröfuhafa lýstu kröfum í bú stærri fjármálafyrirtækjanna. Óvíst er því hvort allir þessir kröfuhafar taki á endanum þátt í atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi þrátt fyrir að atkvæðagreiðslur um samningana hafi verið einfaldaðar með lagabreytingum á síðasta löggjafarþingi sem aftur gæti leitt til þess að ekki náist nægilega hátt hlutfall til að samþykkja nauðasamningana.

Loks er lagt til að við lög um fjármálafyrirtæki bætist heimild til handa slitastjórn til þess að gera tillögu á kröfuhafafundi um að einungis þeir kröfuhafar sem skráðir eru í kröfuskrá á þeim degi sem frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis er lagt fram hafi heimild til að kjósa um frumvarp að nauðasamningi. Sérstakar reglur tryggi svo rétt kröfuhafa til að gefa sig fram við slitastjórn og sýna fram á kröfuhafaskipti ef um það hefur verið að ræða.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég geta þess að í kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram í samræmi við það sem ég rakti hér stuttlega fyrr í ræðu minni að verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að bein áhrif þess á ríkissjóð verði óveruleg, einnig að lögfesting þess muni ekki raska forsendum í tekjuhlið ríkisfjármálaáætlunar fyrir árin 2016–2019.

Að þessu sögðu mælist ég til þess, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni umræðu.