145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það segir í greinargerðinni að í aðildarlöndum okkar, þeim ríkjum sem við höfum mest samskipti við, lægi þetta ljóst fyrir út af tvísköttunarsamningum. Þannig að ég velti fyrir mér: Hvar eru þá þessi viðskipti, hvar fara þau fram? Hverjir mundu sem sagt falla undir þetta? Þeir aðilar eru auðsjáanlega ekki í þeim löndum sem við höfum helst viðskipti við og væri fróðlegt að vita hvaðan þeir koma.

En mig langar líka að biðja hæstv. ráðherra að útskýra annað fyrir mér vegna þess að allt er þetta til að auðvelda að stöðugleikaskilyrðin nái fram að ganga. Ég skil það mjög vel. En við þurfum náttúrlega að vera alveg viss um hvað við erum að gera. Í vor eða sumar var lækkað hlutfall þeirra sem þurfa að samþykkja frumvarp að nauðasamningi á kröfuhafafundi úr 95% í 90%. Nú er farið með það niður í 85%. Ég velti fyrir mér: Af hverju þarf að lækka þetta enn frekar en gert var í lögunum sem við settum í vor? Ég skildi það, en ég skil ekki almennilega af hverju lækka þarf það enn frekar nú. Það er talað um jafnvægi sem þarf að ná milli upphæða og fjölda. Getur hæstv. ráðherra útskýrt þetta fyrir mér?