145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég get sagt í fyrsta lagi varðandi fyrra atriðið þá er erfitt að spá fyrir um það nákvæmlega hvar mundi mögulega reyna á þessar tæknilegu hindranir. Í sumum tilvikum, eins og nefnt hefur verið, mundi það mögulega leysast á grundvelli tvísköttunarsamninga, í öðrum tilvikum ekki. Þetta eru skuldabréf sem slitabúin munu gefa út. Það er þá verið að horfa til möguleikans á að skrá þau erlendis og að greiða fyrir viðskiptum með bréfin.

Varðandi síðara atriðið þá get ég eingöngu bent á að hér er um að ræða slitabú sem eru að umfangi að því er mér sýnist, hvort sem við horfum á fjárhæðir eða fjölda hluthafa, af algerlega óþekktri stærð á Íslandi. Við erum að rata inn í framkvæmd löggjafarinnar með hlutafélög sem eru á margan hátt alveg einstök í framkvæmd gjaldþrotalaganna. Hér er sérstaklega verið að horfa til þess að fjöldi kröfuhafa sem hér er undir er svo gríðarlegur að það gæti komið til þess að þúsundir kröfuhafa mundu ekki mæta til þess að taka afstöðu til nauðasamnings á grundvelli krafna sem þeir hafa lýst. Við þær aðstæður getur það mögulega gerst að þau viðmið sem er að finna í lögunum í dag, jafnvel þótt við höfum aðeins rýmkað þau eða dregið úr kröfunum, þyki þegar á allt er horft dálítið stíf og ósanngjörn. Þetta er fyrst og fremst gert til þess að greiða fyrir gerð nauðasamnings án þess þó að sé um of gengið á rétt kröfuhafa eða verið að víkja (Forseti hringir.) frá neinum meginreglum. Það er með hliðsjón af slíkum sjónarmiðum sem þessi tillaga kemur hér fram.