145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra er þetta frumvarp fram komið til að greiða fyrir nauðasamningunum. Í kaflanum um mat á áhrifum stendur:

„Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir því að slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja verði gert auðveldara en ella að ljúka gerð nauðasamninga.“

Í vor var fjallað um þessi mál, stöðugleikann, og það var reyndar kynnt þannig, ef ég man rétt og ég held að ég muni það rétt, sérstaklega þó af hæstv. forsætisráðherra, að hann talaði mest um stöðugleikaskattinn sem er 39% skattur á eignir slitabúanna og að þetta væri fyrst og fremst stöðugleikaskattur, og það væri kylfa sem við værum með á lofti og segðum: Ef þið greiðið þetta ekki þá getið þið gengið hérna að nauðasamningum. Þeir eru þægilegri fyrir okkur. Og þá segja menn: Það er gulrótin, gulrót fyrir ykkur til að klára þetta og til þess að við getum byrjað að losna úr höftum, sem við erum öll sammála um.

Nú á að auðvelda nauðasamningana og það má vel vera að það sé gott og gilt, en ég vil benda á, virðulegi forseti, að menn nefna núna tölur eins og 500 milljarða sem verður munurinn á stöðugleikaframlaginu og skattinum. Ég vil ekki fara nánar út í einhverja leiki með tölur fyrr en ég er búin að skoða þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd. En ljóst er að við erum að tala um gífurlegar fjárhæðir.

Síðan er margt annað sem við þurfum að taka inn, við þurfum að taka inn óvissuna. Fara menn í mál út af stöðugleikaskattinum og þar fram eftir götunum? Ég er alveg sammála því að það gæti vel verið að þegar allt er vegið saman skipti 500 milljarðar, sem einhverjir tala um núna, engu máli og hitt sé miklu betra. En ég ætla að fjalla um fjárhæðir í þessu sambandi í annarri umræðu.

Ég held að það sé alla vega ljóst að við hljótum öll að skoða þetta mál alveg til botns þannig að við séum svolítið sátt við það sem við erum að gera. Hérna erum við sem sagt að auðvelda nauðasamningana. Er það virkilega það sem við ætlum að gera? Ég vil skoða málið í nefndinni áður en ég kemst alveg til botns í því.

Frumvarpið vekur vissulega spurningar. Eins og kom fram í máli mínu áðan við hæstv. ráðherra er orðalagið í greinargerðinni nokkuð kúnstugt, þar segir: „Samkvæmt fulltrúum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja …“ og síðan er gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem þær fjármálastofnanir hafa aflað sér. Ég spyr: Er fjármálaráðuneytið búið að sannreyna að þetta sé svona? Verðum við ekki að vera alveg viss um það að stjórnsýslan í kringum þetta allt saman sé kórrétt?

Einnig segir: „Slíkar skyldur falla að sögn félaganna ekki að starfsemi þeirra …“ og það eru þessi stóru fyrirtæki í útlöndum sem ætla ekki að vinna þá vinnu sem þyrfti að vinna. Ég segi til að taka ekki of stórt upp í mig að mér finnst þetta svolítið kúnstugt. Hæstv. ráðherra segir að hann beri ábyrgð á þessu orðalagi og það má vel vera, en einmitt út af því að þegar við vorum í vor að tala um þetta, og þá vitna ég aftur sérstaklega í viðræður við hæstv. forsætisráðherra, þá sögðu menn: Ja, það er kynntur hérna þessi stöðugleikaskattur, 39%, en svo í bakgrunninum koma nauðasamningar og sagt að þeir hefðu meira og minna verið skrifaðir upp og gerðir að kröfum stærstu slitabúanna. Þetta mátti bara helst ekki heyrast vegna þess að menn voru með kylfuna á lofti. Mér sýnist að þeir hafi ekki bara verið með eina gulrót heldur gulrótabúnt til að menn fari nauðasamningaleiðina. Ég segi enn og aftur, virðulegi forseti, að það má vel vera að það sé besta leiðin. Þetta ætlaði ég að segja um fyrsta atriðið, um undanþágu frá skattskyldu.

Síðan er fjallað um breytingu á afmörkun skattskyldra aðila samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Mér sýnist að þar sé um hreingerningu að ræða, ef ég má orða það svo. Ljóst var þegar við ræddum þetta fyrr á árinu að ef bankaskatturinn félli ekki til yrði notað annaðhvort stöðugleikaskattur eða stöðugleikaframlag, hvort heldur væri, til að ná upp bankaskattinum en það mun ekki hafa verið gert ráð fyrir því í frumvarpinu um bankaskattinn sjálfan, þannig að mér sýnist þetta ekki vera óeðlilegt. Alltaf getur fólk þurft að laga til heima hjá sér og líka meira að segja í forstofunni.

Síðan eru breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þá er í fyrsta lagi enn verið að auðvelda nauðasamningana, það er verið að auðvelda að aðilaskipti geti farið fram meira að segja eftir að búið er að boða til fundar og þar fram eftir götunum, aftur er verið að auðvelda þetta. Ég vil bara vekja athygli á því. Í öðru lagi er verið að skýra tímamark þess hvenær slitameðferð lýkur.

Þá er sagt hér: „Eins og fram kemur í 3. mgr. er hins vegar gert ráð fyrir því að nauðasamnings sé leitað þegar eignir duga ekki til greiðslu krafna að mati slitastjórnar og einnig er þar sérstaklega heimilað að í frumvarpi að nauðasamningi sé hluta krafna varið til að greiða fyrir nýja hluti í viðkomandi fyrirtæki þegar svo stendur á. Við þær aðstæður ætti því hvorki við sú aðstaða sem gert er ráð fyrir í 1. eða 2. mgr. Því er nauðsynlegt að skýra sérstaklega að hinni eiginlegu slitameðferð lýkur með staðfestingu nauðasamnings samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Greiðslur á grundvelli nauðasamnings geta tekið nokkurn tíma og ekki er nauðsynlegt að slitastjórn annist þær að öðru leyti en leiðir af lögbundnum skyldum.“

Mér sýnist þetta vera eitthvað sem kom fram og sé gert að kröfu eða með vilja slitastjórnanna sem væntanlega eru þá búnar að fá nóg af þessu starfi og vilja losna út úr því eins fljótt og mögulegt er, þannig að þarna er tekið tillit til þess.

„Í þriðja lagi er lögð til breyting á 12. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laganna sem kveður á um hlutfall samþykkis nauðasamnings eftir fjárhæðum.“ Út í þetta var ég að spyrja ráðherrann, hver ástæðan væri virkilega til þess. Ég verð að viðurkenna að ég var litlu nær eftir útskýringar hans. Ég kenni honum ekki þar um vegna þess að tíminn er stuttur til að skýra svona mál. Ég mun fara fram á það í nefndinni að ég fái greinarbetri upplýsingar um það.

Síðan kemur hérna eina ferðina enn:

„Eftir samþykkt laganna“ — sem við samþykktum í vor — „hafa borist ábendingar um að framangreint þak kunni að vera of hátt miðað við þann fordæmalausa fjölda kröfuhafa …“ Aftur virðist vera sem stóru kröfuhafarnir komi og segi: Þetta gengur ekki, við þurfum að hafa þetta betra. Svo kemur þetta:

„Í ljósi þeirra ríku þjóðhagslegu hagsmuna sem eru í húfi að slitum fjármálafyrirtækjanna …“ er talið nauðsynlegt að lækka þetta niður í 85%. Það má vel vera, en það sem ég er helst að vekja athygli á í 1. umr. um málið er að það er alls staðar alltaf verið að liðka fyrir nauðasamningunum. Lögin sem samþykkt voru voru tvenns konar, þau voru um stöðugleikaskattinn og þau voru um stöðugleikaframlagið. Hæstv. forsætisráðherra var alveg ákveðinn í því að það væri stöðugleikaskatturinn sem væri aðalið í frumvarpinu og hitt væri svona með, það væri gulrót sem ég held að sé gulrótabúnt. Mér finnst við þurfa, og allir, að gera okkur nákvæmlega grein fyrir því um hvað málið fjallar. Það er ekki stórt í sniðum út af fyrir sig og virðist vera sanngjarnt miðað við það að allir séu alveg sannfærðir um að þessi leið, nauðasamningarnir, sé best. En þurfum við ekki að vera alveg 100% viss um hvað við erum að gera? Menn tala um 500 milljarða. Við höfum talað um og æst okkur hér í þessum sal út af lægri upphæðum, ansi miklu lægri upphæðum.

Það er það sem ég vil kannski vekja athygli á, en mun síðan halda um þetta ítarlegri ræðu þegar ég er búin að afla allra þeirra upplýsinga og skýringa í nefndinni sem ég tel þörf á. Þar með hef ég lokið máli mínu, virðulegi forseti.