145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi bara guði sé lof. Hv. þingmaður stendur fyllilega undir væntingum mínum. Ég gat þess í mínu stutta andsvari áðan að mér hefði því miður ekki tekist sökum skyldustarfa að hlýða á upphaf umræðunnar. Þetta tiltekna atriði varðar meginefni frumvarpsins og það er algjörlega út í hött að hæstv. fjármálaráðherra geti boðið okkur það að breyta þessu tiltekna ákvæði í þágu kröfuhafa beinlínis til þess að auðvelda þeim að fá meira fyrir kröfur sínar og leggur engin gögn fram fyrir þingið til að styðja það. Hann hefur heyrt þetta, einhver hefur sagt þetta við hann.

Svona setja menn ekki lög á hinu háa Alþingi. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þetta gengur ekki, ég þakka henni fyrir þá skýru yfirlýsingu um að hún muni gera reka að því að fá einhver gögn sem eru á bak við þetta. Ef þau eru ekki þá er málið algjörlega sjálffallið. Fyrir utan það tel ég að það sé engin sérstök skylda okkar á Alþingi að ganga með þessum hætti fram fyrir skjöldu til að auðvelda kröfuhöfum að uppfylla tímamörk til að geta smokrað sér fram hjá stöðugleikaskattinum.

Mér er alveg sama þó að þeir nái ekki að ljúka sínum málum í tíma í staðinn fyrir það að fá þessa hjáleið sem ríkisstjórnin bjó til á síðustu stundu og gleymdi að segja þinginu frá og gleymdi að segja þjóðinni frá þegar þeir upplýstu um málið á hinum fræga Hörpufundi, mér er alveg sama þó að það leiði til þess að þeir komist ekki að smokra sér í gegnum þessa hjáleið. Það þýðir það eitt að stöðugleikaskatturinn sem hæstv. ríkisstjórn segir að muni standast allar alþjóðlegar skuldbindingar mun færa okkur í staðinn fyrir 330 milljarða hugsanlega 663. Og það munar töluverðu. Þetta er sennilega mesta skattatilfærsla eða skattalækkun sem þekkist á byggðu bóli en það eru ekki venjulegir Íslendingar sem fá það, nei, það eru kröfuhafar. (Forseti hringir.)