145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, forseti, þetta er stærsta málið sem við fjöllum um á þessu kjörtímabili. Við sögðum það í vor þegar við fjölluðum um stóra frumvarpið, þá var talað um að það væri stærsta málið. Nú kemur hingað inn lítið frumvarp sem lætur ekki mikið yfir sér og virðist bara vera til þægilegheita um þetta eða hitt. Mér sýndist þegar ég las það fyrst yfir að þetta væri líklega það sem þyrfti að gera. Þegar ég las það hins vegar aftur sá ég að við þyrftum að skoða þetta mjög nákvæmlega. Við þurfum að skoða þetta mjög nákvæmlega því að, eins og hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan við hv. þm. Ástu Helgadóttur, þessi skattfrádráttur er bara lítið korn í öllum þessum umræðum, en það breytir því ekki að við þurfum að skoða þetta allt niður í kjölinn og vera algjörlega viss um hvað við erum að gera. Það er svar mitt til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og ég vona að ég bregðist honum ekki í þessu máli fremur en öðrum.