145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta innlegg ekki á háu plani. Sá sem hér talaði síðast vildi einmitt borga kröfuhöfum íslensku þjóðarinnar mörg hundruð milljarða í fyrsta Icesave-málinu. Það var komið í veg fyrir það.

Þegar við komum í ríkisstjórn er því haldið fram hér að útfærðar hugmyndir hafi legið fyrir. Staðreyndin er sú að menn vissu hvorki fram né aftur hvert þeir ætluðu að fara í þessu máli. Það lágu engin plön fyrir, það hafði ekkert verið kynnt, hvorki skattur né stöðugleikaskilyrði af nokkru tagi. Samfylkingin var samfleytt í ríkisstjórn frá 2007–2013 og ég kannast ekki við að það hafi nokkru sinni komið eitthvað fram með skýrum hætti um það hvernig ætti að leysa þetta mál, ekkert nema einhver almenn orð. Af hverju notuðu menn ekki síðasta kjörtímabil ef það var svo augljóst hvernig átti að gera þetta? Menn vissu meira að segja fyrir kosningar nákvæmlega hvernig átti að gera þetta. Lá ekki fyrir að menn gátu fengið undanþágur frá höftum allt síðasta kjörtímabil — en fengu aldrei? Voru ekki slitabúin algjörlega óleyst? Það hefur tekið langan tíma fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr að halda áfram að vinna með þetta mál þannig að menn sæju til botns í þessari tunnu og greindu alla áhrifavaldana á gengi krónunnar ef slitabúin eru gerð upp og hvað aflandskrónuvandinn er mikill. Við erum komin fram með heildstæða áætlun sem leysir þetta mál. Henni hefur verið það vel tekið að lánshæfismat ríkisins og lykilfyrirtækja í landinu hefur hækkað, það hefur styrkst eftir að áætlunin var kynnt.

Svo er rætt hér um það eins og við séum í alvörunni að tala um að veita einhvern afslátt. Afslátt af hverju? Þetta er heildstæð aðgerð sem miðar að því að menn geti núna gengið fyrir áramót frá uppgjöri slitabúanna og greitt mörg hundruð milljarða til að hlutleysa búin, ella lenda menn í skattinum. Skatturinn svarar öðrum spurningum sem þá eru útistandandi ef menn eru ekki búnir að ljúka sínum málum.

Þetta er í sjálfu sér sama umræðan og við tókum síðasta vor. Ef menn vilja stilla þessu svona upp, að það sé verið að gera (Forseti hringir.) einhverjum greiða, held ég að menn ættu að lesa gögnin aðeins betur. Að mínu áliti eru menn á algjörum villigötum ef þeir halda að þær aðgerðir sem hér er um að ræða séu greiðasemi við kröfuhafana. Því er aldeilis öfugt farið.