145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mér finnst það nú nokkuð svert hjá hæstv. fjármálaráðherra þegar hann heldur því fram að það hafi ekki verið um nokkra eftirgjöf að ræða gagnvart kröfuhöfum. Einn af helstu fjármálablaðamönnum íslensku fréttamannastéttarinnar, Þorbjörn Þórðarson, skrifaði sérstakan pistil um það í markaðshluta Fréttablaðsins að þegar niðurstaðan um stöðugleikaframlög í stað stöðugleikaskatts kom fram hefðu kröfuhafar ærst af gleði. Umræddur fréttamaður notaði þetta orðalag, ærst af gleði. Síðan velti hann fyrir sér í sama pistli hvað ylli því sem hann kallaði ofsakæti kröfuhafa. Hann svaraði þeirri spurningu með annarri spurningu: Getur verið að íslensk stjórnvöld hafi samið af sér?

Ég ætla ekki að halda því fram. Hins vegar ætla ég að segja að mér finnst að hæstv. ráðherra, ef hann vill ræða þessa hluti málefnalega, geti ekki endurskrifað söguna með þessum hætti. Hann getur ekki haldið því fram að það hafi ekki verið búin til allt önnur leið fyrir kröfuhafa en sú sem hann kynnti mér og öðrum Íslendingum í beinni útsendingu úr Hörpu. Þar stóð hæstv. fjármálaráðherra í öllu sínu veldi og talaði um stöðugleikaskatt sem ætti að vera um það bil 39%. Hann plataði mig og fleiri vegna þess að ég sagði strax: Það er eitthvað sem ég get stutt. Ég taldi að það væri í samræmi við það sem menn höfðu áður undirbúið.

Hæstv. fjármálaráðherra rifjaði upp síðasta kjörtímabil og sagði að hér hefði verið stjórn undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann sagði að vísu á árunum 2007–2013, svo gott var það nú ekki. Tvö árin átti okkar ágæti félagi Geir H. Haarde sem forsætisráðherra. Hitt er rétt að 2009–2013 var hér ríkisstjórn undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur. Það vill svo til að það er loks að renna upp fyrir íslensku þjóðinni hvaða afrek sú ríkisstjórn vann til að hreinsa upp þá gríðarlega erfiðu stöðu sem ríkisstjórnin tók við. Ég rifja það upp fyrir hæstv. fjármálaráðherra, af því að ég veit að hann er sanngjarn maður og vill hafa það sem réttast er, að íslenska þjóðin hefur nýlega lýst þeirri skoðun sinni að forsætisráðherrann í þeirri ríkisstjórn, Jóhanna Sigurðardóttir, sé ekki bara vinsælasti heldur langvinsælasti forsætisráðherra á lýðveldistímanum. Ég vil ekki gera hæstv. ráðherra það að rifja upp hvar fyrrverandi leiðtogi lífs hans var í þeirri röð og alls ekki hvar núverandi stendur, en ég er viss um að hann hefði orðið glaður ef þeir tveir hefðu komist nálægt hylli og verðleikum sem forsætisráðherra þeirrar ríkisstjórnar virðist njóta hjá íslensku þjóðinni. Staðreyndin er nefnilega sú að þá unnu menn eins og allar þær ríkisstjórnir sem hér hafa setið frá því að bankahrunið reið yfir, gott starf.

Það eina sem vantar hins vegar er að menn horfist í augu við það. Í staðinn þykir mér sumir ráðherrar núverandi hæstv. ríkisstjórnar nota öll tækifæri til að atyrða þá ríkisstjórn. Þeir ættu að horfast í augu við það að partur af því að vel gengur í íslensku samfélagi í dag er að sú ríkisstjórn vann störf sín ekki bara af bestu getu heldur var hún alveg eins og raunar ríkisstjórn Geirs H. Haardes á undan fundvís á réttar leiðir. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að ríkisstjórn Geirs H. Haardes, tvær ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur og núverandi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi allar unnið gott verk við að ná upp dampi í íslensku samfélagi.

Ég tel líka, eins og ég hef áður sagt, að það megi hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir margt sem hann hefur gert. Mér sýnist af ýmsum frumvörpum sem hann hefur lagt fram síðustu missiri að hann sé bæði að vinna vinnuna sína og læra af reynslunni. Margt af því sem hann kemur í form laga miðar að því að koma í veg fyrir að svipuð atburðarás og var hér 2008 geti endurtekið sig. Hann á hrós skilið fyrir það alveg eins og ég hrósa fyrri forsætisráðherrum og ríkisstjórnum þeirra vegna þess að menn hafa hér sameiginlega tosað á egginu.

Aðeins um söguna líka. Hæstv. forsætisráðherra var í eins konar pílukasti við formann Samfylkingarinnar og spurði: Hvernig stóð á því að fyrri ríkisstjórn var ekki búin að klára þetta mál? Í fyrsta lagi var það ekki fyrr en undir blálok þess kjörtímabils sem menn voru búnir að ná utan um umfang vandans og kortleggja landslag krafnanna Það veit hæstv. fjármálaráðherra mjög vel. Undir blálok þess kjörtímabils hefði verið hægt að ráðast í samninga við kröfuhafana, m.a. vegna þess að partur af þáverandi stjórnarandstöðu hafði skakað skellum með þeim hætti. Ég hika ekki við að segja að þar eigi Framsókn töluvert í kreditdálknum því að kröfuhafar voru heldur farnir að skjálfa í hnjánum og reiðubúnir til að semja þá. En þegar þáverandi fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, vildi fara í það mál, eins og kom meðal annars fram í viðtali við hana í Viðskiptablaðinu snemma í apríl, þá var alveg klárt að það var ekki hægt nema þverpólitískt samþykki væri fyrir því.

Hverjir hlupust þá undan merkjum? Núverandi formaður og varaformaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi hæstv. ráðherrar, sögðu nei, þeir ætluðu að sjá um það sjálfir. Af hverju? Þeir vildu fara aðra leið. Það var sú leið sem hv. þm. Árni Páll Árnason rifjaði hér upp í sinni ágætu ræðu áðan og hæstv. fjármálaráðherra stóð í margra missira barningi að koma í veg fyrir. Sú leið sem að lokum varð ofan á var hin rétta. Það var þess vegna sem stjórnarandstaðan stóð með ríkisstjórninni þegar þetta mál var afgreitt í vor. Nánast allir í stjórnarandstöðunni stóðu með ríkisstjórninni vegna þess að um svona mál, sem eru lykilmál í endurreisninni, þarf að ná þverpólitískri samstöðu. Það getur ekki gefið hæstv. ríkisstjórn einhverja opna ávísun á það að stjórnarandstaðan styðji hvað sem er.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki komið algerlega hreint til dyranna þegar hún birti okkur lausnina og þá vísa ég vitaskuld í fundinn í Hörpu. Ég horfði á hann, gladdist í hjarta mínu, skildi að vísu ekki nema helminginn af þeim 88 glærum sem þar var brugðið upp en veit þó að á engri glærunni, vegna þess að það var farið yfir þær eftir á, var minnst á orðið stöðugleikaframlög. Það var bara talað um stöðugleikaskattinn. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að talan 1.200 vísaði ekki til þess sem slitabúin þyrftu mögulega að láta af höndum í íslenskri eign eða krónueign við uppgjörið heldur var það tekið skýrt fram að 300 milljarðar af því voru í hinum svokölluðu jöklabréfum. Eftir stóð hins vegar sú tala sem var nákvæmlega sama talan og formaður Framsóknarflokksins brá á loft í frægri ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins. Þar var talað um mörg hundruð milljarða sem mundu falla íslenskum skattborgurum í skaut, þ.e. ríkissjóði, og þegar gengið var á framsóknarmenn um hvað þar væri verið að tala um þá kom upp talan 850 milljarðar, svo að það liggi algerlega ljóst fyrir.

Nú er það þannig að ég sem þingmaður í stjórnarandstöðu og algerlega ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum eins og forsetinn verð eigi að síður að taka ákvarðanir út frá því sem er þjóðinni fyrir bestu. Ég á um það að velja að styðja þá leið sem ríkisstjórnin hefur nú farið og kynnti raunar síðar sama dag og hún hafði haldið sínar miklu ræður í Hörpu. Það er sú leið sem ég hef leyft mér að kalla hjáleið sem felur það í sér að slitabúin geta í reynd sloppið við stöðugleikaskatt ef þau uppfylla ákveðin skilyrði sem fela það meðal annars í sér að þau reiða af höndum tilteknar krónueignir. Það sem rennur þá í skaut hins íslenska samfélags, hvort sem menn kalla það froðukrónur eða eitthvað annað, mundi samkvæmt leið stöðugleikaframlaganna verða í kringum 330 milljarðar. Það eru að minnsta kosti tölurnar sem liggja fyrir núna. En ef farin væri leið stöðugleikaskattsins þá mundi það verða miklu meira. Brúttó 850 mínus afsláttur upp á 160 milljarða. Það er í kringum 663 milljarða. Með öðrum orðum, þetta er tvöfaldur munur.

Ég treysti hæstv. fjármálaráðherra. Hann kann að reikna og hann hefur sagt mér hér yfir þetta púlt að stöðugleikaskatturinn sé pottþéttur, hann taki hins vegar meiri tíma en hann sé pottþéttur. Þá vil ég að minnsta kosti hafa það rými að ákveða hvort er betra fyrir íslenska samfélagið að fara stöðugleikaframlagaleiðina eða stöðugleikaskattsleiðina. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er búið að búa til leið fyrir slitabúin til að fara. Þau þurfa þá að ljúka ákveðnum þáttum og gerningum af sinni hálfu fyrir tiltekin tímamörk. Ef þau gera það ekki — tímamörkin eru næstu áramót — þá brestur á þau stöðugleikaskatturinn.

Hvað er á hættu fyrir íslenskt samfélag ef sú verður niðurstaðan? Hugsanlega tekur það eitthvað lengri tíma að aflétta gjaldeyrishöftum. Það hefur aldrei verið skýrt út fyrir mér. Kannski vill hæstv. fjármálaráðherra skýra það út fyrir mér í ræðu hér á eftir. Hann er glöggur maður og ég skil yfirleitt það sem hann segir.

Þetta eru tvær leiðir. Ég er ekki viss um að stöðugleikaframlagaleiðin sé hin besta en ég er hins vegar sannfærður um það og fellst á að báðar fela þær í sér hlutleysi gagnvart fjármálalegum stöðugleika. Það er nóg fyrir mig. Hvers vegna eigum við þá að fara þá leið að afhenda kröfuhöfum það sem ég hef kallað Sigmundargjöfina sem er samkvæmt þessum útreikningi einhverjir 330 milljarðar? Hvers vegna?

Það er gott að rifja hér aðeins upp Icesave af því að hæstv. fjármálaráðherra sló sér um of á brjóst í því efni. Það vill svo til að Icesave 2 hefði falið í sér kostnað upp á 67 milljarða fyrir íslenska þjóðarbúið. 21 eða 22 af því voru greiddir úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda. Það væru þá nettó 40–45 milljarðar sem kostnaðurinn hefði verið. Það vill svo til að margir vildu fara þá leið, 40% þeirra sem fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meðal þeirra sem vildu fara þá leið var hæstv. fjármálaráðherra. Hver voru rök hans þá? Jú, vissulega kostaði þetta eitthvað en við yrðum miklu fljótari að aflétta gjaldeyrishöftunum. Það var alveg hárrétt hjá honum vegna þess að það hefur verið metið svo að gjaldeyrishöftin kosti samfélagið 80 milljarða á ári. Nú nota að minnsta kosti sumir þeir sem mæla með stöðugleikaframlagaleiðinni frekar en skattaleiðinni einmitt þessi sömu rök: Við verðum fljótari að aflétta gjaldeyrishöftunum. Það kann vel að vera að þetta sé reikningsdæmi en klárt er að menn þurfa þá að borga fyrir þann flýti um það bil 10 sinnum hærri upphæð en þeir hefðu þurft að borga fyrir að flýta sér gagnvart Icesave 2. Það er hollt að hafa þetta í huga.

Varðandi þetta frumvarp þá skil ég alveg hvað vakir fyrir hæstv. fjármálaráðherra. Hann vill tryggja að hægt sé að ganga frá málum slitabúanna með þeim hætti sem kveðið var á um í hinni svokölluðu hjáleið, samkvæmt lögum sem við samþykktum í vor, fyrir 1. janúar. Ég hef efasemdir um að það sé mitt hlutverk að samþykkja lög sem beinlínis hjálpa þeim til þess. Hér hafa menn sérstaklega sett krókinn í eitt tiltekið atriði. Það felur í sér að hér er lagt til að kröfuhafar fái undanþágu vegna svokallaðs afdráttarskatts sem ber að halda eftir vegna vaxtatekna af vaxtaberandi skuldabréfum. Hvers vegna í ósköpunum á Alþingi Íslendinga að hjálpa þeim að notfæra sér stöðugleikaframlagaleiðina í staðinn fyrir að fara hina leiðina sem hefur í för með sér miklu meiri greiðslur til Íslendinga ef báðar leiðirnar koma út með fjármálalegu hlutleysi gagnvart stöðugleika Íslands? Hvers vegna? Ég fæ ekki séð rökin fyrir því og enn síður, þegar búið er að upplýsa það hér og hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki hafnað þeirri röksemdafærslu, að vegna tvísköttunarsamninga munu kröfuhafar sem hafa heimili sitt í Bandaríkjunum og Evrópu ekkert þurfa á þessu að halda. Þetta er fyrir Tortólaliðið. Þetta er fyrir þá sem eiga peninga í skattaskjólum. Eigum við að hjálpa því fólki? Mér finnst það ákaflega erfitt.

Frú forseti. Fyrir utan það sem ég veit að hefur þegar verið fundið að við hæstv. ráðherra — hvernig dettur honum í hug með alla þá þingreynslu sem hann hefur að koma til þings með þetta ákvæði og segja bókstaflega í greinargerðinni að þessi tillaga byggist á orðrómi eða sögusögnum? Það kemur fram í greinargerðinni að samkvæmt fulltrúum slitabúa föllnu fjármálafyrirtækjanna hafi þeir heyrt að þau fyrirtæki sem sýsli með skuldabréf muni ekki taka þau (Forseti hringir.) til meðferðar. Hvernig er hægt að bjóða upp á lagasetningu af þessu tagi? (Forseti hringir.)

Tími minn leyfir mér ekki að fara frekari umvöndunarorðum um þetta mál (Forseti hringir.) en þetta er ekki stjórnsýsla sem hægt er að hrópa húrra fyrir.