145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða hér, hún hefur að verulegu leyti snúið að lögum sem þegar hafa verið sett og tengjast að sjálfsögðu því frumvarpi sem við ræðum hér. Þó hafa efnisatriði þess máls sem liggur fyrir þinginu, og við erum með á dagskrá, kannski verið í ákveðnu aukahlutverki í umræðunni. Það er allt í lagi mín vegna. Þetta tengist stóra málinu, sem er afnám hafta og hvernig við hyggjumst tryggja framgang áætlunar stjórnvalda um afnám haftanna.

Ég ætla að byrja á því að segja, af því að hér hefur verið mikið rætt um stöðugleikaframlagið sem slíkt, að það er órjúfanlegur hluti áætlunarinnar. Samspilið milli stöðugleikaframlagsins og stöðugleikaskattsins er mikilvægt, annars vegar vegna þess að í lagalegu tilliti getur það haft þýðingu að sýna fram á að gætt hafi verið meðalhófs við útfærslu á þeim atriðum sem eiga að tryggja þau markmið sem eru hér undirliggjandi, þ.e. að afnema höftin, og að vissu leyti má segja að stöðugleikaframlagið tryggi það sérstaklega að sýna fram á að meðalhófs hafi verið gætt, að aðrar leiðir hafi staðið til boða til að tryggja að greiðslujafnaðarvandanum væri eytt. Allar aðgerðir okkar snúa að því að eyða greiðslujafnaðarvandanum. Hins vegar eru augljós efnahagsleg tengsl á milli stöðugleikaskattsins og stöðugleikaframlagsins einmitt af þessari ástæðu, þegar horft er til greiðslujafnaðaráhrifanna.

Stöðugleikaframlagið hlutleysir greiðslujafnaðaráhrifin við skuldaskil og það getur verið samsett af nokkrum aðgerðum. Hér hefur verið rætt um að þau skilyrði sem þyrfti að uppfylla væru ekki nægilega skýr en ég er því ósammála. Þetta eru í sjálfu sér tiltölulega einföld skilyrði.

Í fyrsta lagi þurfa slitabúin að sýna fram á að gerðar hafi verið ráðstafanir sem draga nægjanlega úr neikvæðum áhrifum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum. Í öðru lagi að öðrum innlendum eignum fallinna fjármálafyrirtækja í erlendum gjaldeyri verði breytt í langtímafjármögun að því marki sem þörf krefur; þetta eru lengingar á slíkum fjármálagerningum. Í þriðja lagi að tryggt verði, í þeim tilvikum sem það á við, að lánafyrirgreiðsla stjórnvalda í erlendum gjaldeyri, sem veitt var nýju bönkunum í kjölfar hruns á fjármálamarkaði, verði endurgreidd. Þetta er stöðugleikaframlag, þetta eru lengingar og þetta eru endurgreiðslur og það er samspil af þessu þrennu sem slitabúin hafa verið að vinna með til að uppfylla stöðugleikaskilyrðin; beint framlag, lengingar og endurgreiðslur; endurgreiðslur í erlendum gjaldeyri vegna fyrirgreiðslu til nýju bankanna.

Til að undirbúa þessa gerninga eru þarna undirliggjandi fjármálaleg samskipti nýju bankanna við slitabúin. Það eru þau bréf sem hér er verið að ræða um í samhengi við skattlagningu vaxta af skuldabréfum. Þetta eru bréf sem slitabúin gefa út í eigin nafni sem liður í fullnustu nauðasamnings við kröfuhafana. Þetta hefur, í því samhengi, tengingu við stöðugleikaskilyrðin. Þetta er í raun og veru það hvernig menn undirbúa slitabúin fyrir gerð nauðasamnings áður en endanlega er ákveðið í hvaða hlutföllum af beinu framlagi, lengingu og endurgreiðslum menn uppfylla stöðugleikaskilyrðin og sýna fram á að þeir hafi greiðslujafnaðarhlutleyst búin fyrir uppgjörið.

Ég tel að þegar menn skoða þetta í þessu samhengi — þ.e. að þetta er undirbúningsaðgerð til að sýna fram á að menn geti uppfyllt stöðugleikaskilyrðin — þá sé það sem við erum að ræða um hér, þ.e. skattlagningin á þeirri útgáfu skuldabréfa, eins og nokkur sandkorn í stórri sandfjöru. Þetta er lítið mál. (ÖS: Ekki spurning um ...) Hér hafa menn verið í umræðunni að segja að verið sé að gefa afslátt og gera kröfuhöfum einhverja greiða o.s.frv. En þá átta menn sig ekki á því að eftir því sem minna væri gert á þessu sviðinu þá hefði þurft að koma meira til einhvers staðar annars staðar. Þetta helst allt í hendur. Endurgreiðslur, lengingar og beint stöðugleikaframlag, þetta helst á endanum allt í hendur. Það sem efnislega er verið að gera hér er að það er verið að gera mönnum kleift að undirgangast skilyrðin. Það er verið að smyrja leiðina að því að uppfylla stöðugleikaskilyrðin. Það er ekkert verið að gefa afslátt á stöðugleikaskilyrðunum, þvert á móti. Það er verið að halda stíft við þau skilyrði.

Síðan er það varðandi allar þessar fjárhæðir — ég tel reyndar að við höfum fyrir nokkrum mánuðum, eða taldi alla vega, tæmt helstu efnisatriði þeirrar umræðu. En það hefur legið fyrir alla tíð, alveg frá því að við kynntum þessar aðgerðir, að framlagið gæti hlaupið á nokkur hundruð milljörðum. Nú segja menn: Það eru einungis 300 milljarðar. Við skulum sjá þegar öll kurl eru komin til grafar hvert beina framlagið verður til að uppfylla skilyrðin. Ég held að ekki sé tímabært að kveða upp úr með það. Ég held að það hafi nú ekki allt staðist sem sagt hefur verið í opinberri umræðu um nákvæmar fjárhæðir í því samhengi. Það mun gerast þannig að fyrir efnahags- og viðskiptanefnd verður farið yfir það. Ef til þess kemur að búin sýna fram á að þau geti undirgengist þessi skilyrði þá mun verða sérstök kynning fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þar sem við getum farið nánar yfir tölurnar í þessu samhengi.

Má ég jafnframt minna á að við höfum á þessu ári, eða á undanförnum árum, verið að taka verulega háan bankaskatt af slitabúunum sem kemur til frádráttar á þeim vanda sem er hér undir. Við stórhækkuðum bankaskattinn en hann skilar tæplega 40 milljörðum á ári. Samkvæmt þessu frumvarpi mun hann falla niður ef búin undirgangast skilyrðin. Við erum sem sagt alltaf að tala um stöðugleikaframlag upp á að lágmarki 300 milljarða; það gætu orðið talsvert hærri fjárhæðir en við skulum bara bíða með að segja nákvæmlega hver sú tala verður. Með í þá tölu má taka stærðir sem tengjast meðal annars bankaskattinum, sem þegar hefur verið innheimtur og hefur dregið úr vandanum.

Síðan erum við að tala um lengingar. Við erum að tala um að þessir aðilar bindi í lengri tíma eignir hér innan lands. Á ákveðinn hátt má segja að með því að gera það að skilyrði séum við að fara fram á að í stað þess að þær eignir fái að fljóta út úr hagkerfinu til kröfuhafanna — eins og kröfuhafar mundu að sjálfsögðu helst vilja geta gert, að greiða þetta út — þá erum við að segja: Nei, þetta getur ekki fengið að flæða út úr landinu, en ef það verður lengt nægjanlega í þessum eignum, þannig að það samrýmist stöðugleika hér í gengismálum, þá geta slitabúin uppfyllt stöðugleikaskilyrðin með lengingum. Hér gætum við verið að tala um fjárhæðir, og við erum að tala um þær fjárhæðir, sem hlaupa á hundruðum milljarða. Við erum í raun að tala um það að við erum að fara fram á að menn fjárfesti í íslenska hagkerfinu mörg hundruð milljarða til næstu ára; þetta er umfram beina framlagið.

Svo erum við loks að tala um endurheimtur vegna fjármögnunar á innlenda bankakerfinu sem er þá gjaldeyrir sem kemur til baka. Þar er um að ræða fjárhæðir á bilinu 50–100 milljarðar. Þegar þetta er allt lagt saman þá sjá menn loksins hvert heildarumfangið, sem við erum að ræða, er. Þegar við erum að tala um beina stöðugleikaframlagið, fjárfestingar upp á mörg hundruð milljarða sem við köllum lengingar á skuldbindingum sem eru inni í krónuhagkerfinu, og svo endurheimtur á erlendri fyrirgreiðslu þá erum við ekki að tala um rétt um 300 milljarða. Við erum að tala um töluvert mikið hærri fjárhæðir. Hverjar þær verða á endanum er ekki hægt að segja nákvæmlega fyrir um á þessari stundu en þó get ég sagt það að þetta samtal — þessar útskýringar, þessi leiðbeining sem hefur átt sér stað á grundvelli stöðugleikaskilyrðanna sem ég rakti hér áðan — hefur verið lifandi á undanförnum vikum og mánuðum allt frá því að aðgerðirnar voru kynntar.

Það er fundað og það eru samskipti á hverjum einasta degi um þessi mál. Við höfum haft framkvæmdahópinn um afnám hafta virkan að undanförnu til að samræma og tryggja gott samtal milli ráðuneyta og Seðlabankans, allra þeirra sem koma að þessum málum, og sú vinna er mjög langt komin. Það ætti ekki að koma neinum á óvart vegna þess að öllum er ljóst að frestir sem slitabúin hafa til að koma sér undan skattinum með því að uppfylla stöðugleikaskilyrðin fara brátt að renna út ef þetta á að gerast fyrir áramót. Það leiðir af því að þeir þurfa fyrst að sýna fram á hvernig þeir ætla að uppfylla skilyrðin, fá þá grænt ljós til að halda kröfuhafafundi og svo á eftir að fara fyrir héraðsdóm og fá nauðasamninga staðfesta. Þetta tekur allt sinn tíma og það þarf að gerast, eins og menn þekkja, á grundvelli laganna fyrir áramót að menn sýni fram á það að þeir hafi uppfyllt skilyrði þess að vera lausir undan skattinum.

Skatturinn, af því að hann hefur talsvert verið nefndur hér, er fullkomlega gild leið til að leysa þetta mál. Hann er á ákveðinn hátt mjög ströng leið, ekki mjög sveigjanleg leið. Ég tel að skatturinn standist alla skoðun en ég tel að það hjálpi hins vegar skattinum, og ég held að það styrki frumvarpið um skattinn, að stöðugleikaframlagsleiðin er jafnframt í boði. Ef við getum verið sammála um að báðar leiðir leysi þann undirliggjandi vanda sem hér hefur verið viðvarandi frá árinu 2008 ættum við í sjálfu sér ekki að þurfa að ræða um það hver munurinn er á annarri leiðinni umfram hina í krónum talið til ríkisins. Ef við ætlum að taka umræðuna á þeim grundvelli þá erum við annaðhvort ósammála um að þetta er ekki tekjuöflunaraðgerð — mín skoðun er sú að aldrei verði hægt að reka þetta mál áfram á grundvelli þess að það skipti öllu máli hversu miklu það skilar í krónum til ríkisins. Það mundi draga undan lagalegri stöðu stöðugleikaskattsins að einungis væri um tekjuöflunaraðgerð að ræða, að þetta hefði ekkert með höftin að gera í sjálfu sér eða greiðslujafnaðarvandann — eða þá að við erum ekki sammála um að stöðugleikaskilyrðin séu til að styrkja þennan lagalega grundvöll skattsins. Það er mín skoðun, það er skoðun okkar sérfræðinga og það er niðurstaðan af allri þeirri vinnu sem hefur átt sér stað undanfarin ár, að aðgerðin í heild sinni sé sterkari, hún skili betur þeim markmiðum sem við erum að stefna að, sé þess meðalhófs sem stöðugleikaskilyrðin bjóða upp á gætt.

Ég tel að svo vel hafi tekist til með þessa samsetningu aðgerða — hún er nokkuð flókin en hún er mjög mikilvæg — að það sé í raun helsta ástæða þess að ríkið og ákveðin lykilfyrirtæki í landinu hafi nú þegar fengið bætt lánshæfismat. Það er þetta samspil. Það er það hversu heildstæð og vel ígrunduð aðgerðin er. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt að það frumvarp sem við höfum til umræðu hér í dag fái skjóta meðferð í þinginu til þess að við fáum botn í það hvort við ætlum sameiginlega að feta þessa slóð eða einhverja allt aðra.