145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það fer svolítill hrollur um mig. Ég er viss um að hv. þm. Frosta Sigurjónssyni rennur líka kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar hann heyrir hæstv. fjármálaráðherra tala um hið lifandi samtal ríkisstjórnarinnar og kröfuhafa. Eins og þetta lítur út frá mínum bæjardyrum þá var það þannig að á sama tíma og verið var að ljúka og kynna þjóðinni leið stöðugleikaskattsins átti sér líka stað lifandi samtal við kröfuhafana sem enginn vissi um, en hæstv. fjármálaráðherra var nógu ærlegur til að greina frá hér í andsvörum við framsöguræðu sinni fyrir stöðugleikaskattinum. Gott og vel.

Ég skil rökin sem felast í meðalhófinu. Ég tel að þau séu mikilvæg og það var fyrst og fremst af þeirri ástæðu sem stjórnarandstaðan veitti ríkisstjórninni þann styrk sem felst í þverpólitískum stuðningi við frumvarpið hér í vor. Það er miklu erfiðara fyrir kröfuhafana að ætla að fara í einhvers konar lagaflækjulegan leiðangur ef búið er að bjóða upp á þessa leið. En hæstv. fjármálaráðherra var rétt í þessu að endurtaka enn einu sinni að skattaleiðin væri gild leið. Hún er enn gildari þegar búið er að bjóða upp á aðra leið sem hefur orðið til í lifandi samtali við kröfuhafa.

Það sem kröfuhafar vildu fá fengu þeir. Eigum við að gefa þeim meira? Ef þetta eru jafn gildar leiðir og önnur leiðin skilar að lokum í ríkissjóð töluverðum fjárhæðum umfram, jafnvel þótt það séu krónur sem hæstv. fjármálaráðherra hefur áður sagt að ekki sé hægt að nota, a.m.k. ekki núna, hvers vegna er sú leið ekki farin? Og ég vildi gjarnan að hæstv. fjármálaráðherra svaraði hver hættan væri í því. Er hættan sú að við hefðum ekki fengið hækkun á lánshæfismatinu? (Forseti hringir.) Er hættan sú að það taki lengri tíma að afnema gjaldeyrishöftin? Þetta eru konkret spurningar sem mundu hjálpa til að skýra bakgrunn þess að þessi leið er valin.