145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru engir samningar í gangi. (ÖS: Lifandi samtal.) Það er þó þannig að þegar teflt er fram frumvarpi til nauðasamnings og útfært með hvaða hætti menn ætla í fyrsta lagi að skila stöðugleikaframlagi, í öðru lagi að lengja skuldbindingar sem menn hafa haft gildar hér á innlenda aðila og í þriðja lagi að skila endurgreiðslum, þegar menn eru að útfæra það í smáatriðum þá koma upp ýmis álitamál. Það eru væntingar um að geta kannski frekar gert þetta aðeins meira með þessum hætti en hinum. Það kallar á leiðbeiningu sem Seðlabankinn hefur veitt, en það er aldrei verið að semja með nokkrum einasta hætti um þau grundvallaratriði sem ég hef verið að rekja hér sem eru forsendur stöðugleikaskilyrðanna, hvað þá heldur að gefa einhvern afslátt af skattinum eða þeim markmiðum sem við höfum sett okkur.

Síðan er það þannig að ef menn meina eitthvað með því að þeir styðji stöðugleikaframlagið, ef menn meina eitthvað með því að þeir telji að það sé mikilvægur þáttur heildaraðgerðarinnar, að stöðugleikaframlagið sé til vitnis um að gætt sé meðalhófs, og meina eitthvað með því að þeir telji að það geti jafnvel haft áhrif á gildi stöðugleikaskattsins, þá verða þeir líka að veita lausnina ef skilyrðin eru uppfyllt. Ef komið er til stjórnvalda og til Seðlabankans með tillögur sem falla í einu og öllu að stöðugleikaskilyrðunum en það á samt að segja nei, þá meina menn ekki neitt með því sem þeir segja.