145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef hlustað með athygli á flutningsræðu hæstv. ráðherra og svo á ræður annarra þingmanna sem hafa tjáð sig um þetta mál. Ég verð að segja alveg eins og er, ég er bara skíthræddur, ég ætla að fá að nota það orð, við hvað hér er verið að gera — skíthræddur.

Þess vegna vil ég í þessu andsvari spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þetta vegna þess að hér er verið að fjalla um leið til að gefa afslátt af fjármagnstekjuskatti. Það er útskýrt hérna að borist hafa upplýsingar frá aðilum. Inn í þetta blandast líka tvísköttunarsamningar sem við höfum við aðrar þjóðir. Spurning mín sem ég ætla að setja í þennan búning ef eitthvað af þessum kröfuhöfum eru í skattaskjólum sem eru mörg í heiminum, t.d. á Tortóla, og þá er spurningu minni beint til fjármálaráðherra: Er þá verið að gefa afslátt líka til þeirra sem eru í skattaskjólum?