145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp sem ég er hér að mæla fyrir gerir ekki ráð fyrir því að þeir sem muni vilja skrá skuldabréfin sem gefin verða út séu í einni skattalögsögu umfram aðra. Ég hef ekki tekið afstöðu í þessu máli með tilliti til þess að einhverjir kunni að vera á einhverjum af þessum eyjum sem hv. þingmaður nefnir.

Þetta frumvarp gengur einfaldlega út á það að greiða fyrir því, eins og hægt er að ætlast til af stjórnvöldum, að slitabúin geti lokið gerð nauðasamnings á þessu ári. Einn liður í því er skattaleg meðferð á skuldabréfum sem gefin verða út af slitabúunum. Þar er um að ræða ráðstafanir sem ekki munu hafa teljandi áhrif á ríkisfjármál eins og segir í kostnaðarumsögn um þetta mál. Þegar við metum frumvarpið í samhengi við heildaraðgerðina þá eru þetta tiltölulega einfaldar og afmarkaðar ráðstafanir. Þær eru það.

Um öll þau atriði sem menn hafa haft áhyggjur af er hægt að fjalla í efnahags- og viðskiptanefnd og kalla eftir frekari skýringum. Ráðuneytið mun bregðast við eftir því sem hægt er. En um orðalagið sem vísað er til verð ég að segja að mér finnst það svona eftir á að hyggja dálítið óheppilegt. Ég held hins vegar að öllum sé tilgangurinn ljós.