145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Árið 2007 hóf Borgarholtsskóli að kenna kynjafræði sem valfag. Margir skólar fylgdu í kjölfarið og mikil vakning varð meðal nemenda og femínistafélög spruttu upp í framhaldsskólum. Margir nemendur komu fram í fjölmiðlum og sögðu frá reynslu sinni af námi í kynjafræði. Voru þeir á einu máli um að kynjafræðin hefði ekki aðeins breytt hugmyndum þeirra um stöðu kynjanna heldur hefði hún almennt gert þá meðvitaðri um mannréttindi og lýðræði.

Í valáfanga í kynjafræði í framhaldsskólum er meðal annars fjallað um vændi, mansal, hinsegin-málefni, stjórnmál, völd, staðalímyndir, klám og klámvæðingu. Reynsla mín af því að kenna slíkan áfanga er sú að nemendur eru almennt illa að sér í þessum fræðum. Í mörgum tilfellum verða þeir fyrir mikilli uppljómun í kynjafræðitímum. Margir nemendur hafa sagt að þeir líti lífið einfaldlega öðrum augum eftir að hafa setið kynjafræðiáfanga.

Leiðin að jafnrétti kynjanna hlýtur að liggja í gegnum menntun og fræðslu. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist er enn töluvert í land. Það sjáum við á launamun kynjanna, kynjaskekkju, t.d. í ríkisstjórninni, í Hæstarétti og í stjórnum fyrirtækja og svo mætti lengi telja. Ef við ætlum að ná fram raunverulegu jafnrétti í þessu samfélagi ættum við að vera með markvissa jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og ekki síst í framhaldsskólum.

Ég skora á menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að gera grunnáfanga í kynjafræði að skyldufagi á öllum brautum framhaldsskólanna.


Efnisorð er vísa í ræðuna