145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það var samhljómur í málflutningi sveitarstjórnarmanna á fundum með þingmönnum Suðurkjördæmis í síðustu viku. Allir töluðu til dæmis um samgöngur. Mikil fjölgun ferðamanna hefur haft stórkostlegar breytingar í för með sér sem ekki eru viðurkenndar í fjárlagafrumvarpinu, helsta stefnuplaggi ríkisstjórnarinnar.

Þegar fjölgun ferðamanna á vegum landsins nemur hundruðum þúsunda er augljóst að álagið á vegakerfið krefst aukins viðhalds. Álag á lögregluna hefur síðan aukist í takt við fjöldann sem fer um landið og þjónusta við íbúa situr á hakanum. Það sama má væntanlega segja um heilsugæslu víðast hvar um land.

Dæmi eru um sveitarfélög þar sem samsetning íbúa hefur breyst mjög í kjölfar aukinnar ferðamennsku og aukins ferðamannastraums. Þar fækkar börnum í skólunum en íbúum fjölgar vegna einhleypra útlendinga sem starfa tímabundið við ferðamennsku. Húsnæðisvandi er víða vegna þess að ferðamenn fara í öll hús sem losna en einnig vegna kostnaðar við byggingu húsnæðis sem aldrei fæst til baka við sölu. Á Suðurnesjum og í Þorlákshöfn þarf að leysa vanda sem skapast hefur vegna húsa sem standa lengi auð og grotna niður og við það ástand er ekki hægt að búa til lengdar.

Í öllum sveitarfélögum var kallað eftir auknu fé í málefni fatlaðra og sveitarfélögin segjast skila málaflokknum ef ekki verður gerð bragarbót þar á. Við blasir mikill vandi í málefnum aldraðra víðast hvar og beðið er eftir áætlunargerð stjórnvalda sem lætur á sér standa. Lögbundnir tekjustofnar duga almennt ekki fyrir rekstri sveitarfélaga.

Herra forseti. Það er ekki nóg að guma af hallalausum ríkissjóði og því að ferðamönnum hafi fjölgað mest í heimi hér á landi, stjórnvöld verða að skilja að kostnaður og álag á opinbera þjónustu fylgir til viðbótar almennri þjónustu við íbúa landsins.


Efnisorð er vísa í ræðuna