145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er sagt einhvers staðar að það sé meiri gleði yfir einum ranglátum sem snýr aftur en 99 réttlátum. Það gladdi mig í síðustu viku að sjá að Seðlabanki Íslands hefur séð að sér að nokkru. Það vottar fyrir iðrun á þeim bæ yfir því hvernig menn hafa farið með vaxtahækkanir undanfarið. Í þetta skipti báru menn gæfu til þess að halda alla vega vöxtum óbreyttum og það sem meira var tóku þeir undir það sem mjög margir hafa haldið fram lengi, þar á meðal sá sem hér stendur, að nauðsyn væri á því að hækka bindiskyldu banka. Seðlabanki Íslands tók hænuskref í því efni og það ber að fagna því alveg sérstaklega. Ég held að það sé næsta víst að Seðlabanki Íslands hafi farið á undan með vondu fordæmi eftir kjarasamninga sem búið var að samþykkja síðasta vor þegar hann hækkaði vexti strax, áður en séð varð hvernig almenn launaþróun og kjarasamningaþróun yrði. Þetta varð ýmsum fyrirtækjum skálkaskjól til þess í og með kjarasamningum að hækka gjaldskrár sínar og vörur verulega. Ég held að menn hefðu átt að fara heldur hægar í þessa sök. Ég held líka að Seðlabanki Íslands hefði átt að gera það. Hann hefur væntanlega séð að sér núna vegna þess að hann hefur verið farinn að upplifa það sem var bent á hér ítrekað, að með því að hækka vexti eins og gert hefur verið núna á vormánuðum var verið að bjóða til vaxtamunarveislu líkt og árin 2004 og 2005. Væntanlega hafa menn loksins séð að sér og sporin hafa hrætt þá.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að brýna fyrir mönnum að fara hægt að hækkunum vegna þess að það eru ýmis skilyrði til núna, stöðug króna og styrkjandi, til að halda aftur af verðlagshækkunum og vaxtahækkunum í þessu landi.


Efnisorð er vísa í ræðuna