145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:24]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Hún er mjög þörf og á að fara reglulega fram í þingsal og í samfélaginu öllu því að ölvunarakstur er háalvarlegt mál. Það er verið að tala um þyngingu refsinga og annað. Ég er svolítið efins um það, og það kom fram hjá hv. þingmanni, hvort rétta leiðin sé að þyngja refsingar. Það er náttúrlega mjög vandasamt þótt alltaf verði að koma til refsingar.

Ég held að eitt af lykilatriðunum sé að auka fræðslu og forvarnir í þessum málum strax á unga aldri í skólum. Það er gríðarlega mikið atriði að kenna börnum og þeim sem eru að fara að taka bílpróf hvaða ábyrgð þeir þurfa að bera. Einn stærsti hlutinn í því er að kenna börnum að maður keyrir ekki ökutæki undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Það á að vera lykilatriði. Svo þarf líka að auka nám og kröfur til þeirra sem eru að taka bílpróf.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi í gær að sitja fyrirlestur austur í Vík í Mýrdal hjá Ólafi Kr. Guðmundssyni sem er einn af lykilmönnum í umferðarmálum og mikill baráttumaður þess, sem hann lagði einmitt áherslu á, að við Íslendingar förum að setja okkur skýra stefnu í umferðarmálum. Hann sagði að við hefðum enga stefnu í þeim málum. Við værum með lélega vegi og hegðun ökumanna væri ábótavant. Það sem við þyrftum að gera væri að einbeita okkur að því að efla þetta og vera með það sem hann kallaði fimm stjörnu vegi á Íslandi og fimm stjörnu ökutæki og síðan með fimm stjörnu fræðslu sem gerði það að verkum að við værum með fimm stjörnu ökumenn. Inni í þeim pakka væri það að þegar maður hefur smakkað áfengi sest maður aldrei undir stýri.