145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:30]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Elsu Láru Arnardóttur, kærlega fyrir að hefja þessa umræðu um þetta mikilvæga og alvarlega málefni sem ölvunarakstur er. Umferðarslys eru algengustu banaslys á Íslandi og ölvunarakstur er ein helsta orsök banaslysa í umferðinni. Í kjölfar slíks harmleiks fer gjarnan fram umræða um aukin viðurlög vegna ölvunaraksturs.

Þegar kallað er eftir auknum lagasetningum um þyngri refsingar og hert viðurlög er mikilvægt að hafa nægar upplýsingar til að það liggi ljóst fyrir að slíkt muni ná markmiðinu um aukið öryggi í umferðinni. Ákvað ég því í lokaverkefni mínu í laganámi að rannsaka ölvunarakstursmál samkvæmt gögnum lögreglu yfir eins árs tímabil, greina þau gögn sem til staðar voru og skoða þannig eðli ölvunaraksturs. Niðurstöðurnar gefa upplýsingar um hversu margir ökumenn hafa verið teknir fyrir ölvunarakstur og þeir greindir eftir kyni og aldri, hvenær þeir voru teknir og vínandamagn í blóði. Þessar niðurstöður hafa verið bornar saman við önnur gögn sem liggja fyrir um ölvunarakstur. Þá voru tekin viðtöl við einstaklinga sem höfðu verið staðnir að ölvunarakstri.

Helstu niðurstöður eru þær að ógnin vegna ölvunaraksturs skapast helst af tveimur hópum: Annars vegar ungum ökumönnum sem ekki hafa gert sér grein fyrir þeim alvarleika sem fylgir ölvunarakstri og eru oft hvattir af félögum sínum til aksturs og hins vegar þeim sem eiga við áfengisvandamál að stríða og viðurlög virðast ekki hafa áhrif á. Í ljós hefur komið að viðurlögin virðast ekki hafa næg varnaðaráhrif þar sem ökumenn segjast ekki eiga von á að lögregla hafi afskipti af þeim yfir höfuð. Mikilvægt er því að hafa áhrif á viðhorf samfélagsins til ölvunaraksturs, auka þarf skyldu þeirra sem taka þátt í umferðinni til að koma í veg fyrir ölvunarakstur með því að tilkynna hann til lögreglu auk þess sem eftirlit lögreglu þarf að vera markvissara svo að ökumenn eigi hvar og hvenær sem er von á því að þeir verði stöðvaðir við ölvunarakstur.

Það kom fram við gerð umferðaröryggisáætlana að hægt væri að koma í veg fyrir fjögur af hverjum fimm umferðarslysum vegna ölvunar- og hraðaksturs með öflugra eftirliti lögreglu.