145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að henda inn einum punkti í viðbót um refsingar. Hann er úr umsögn lögreglustjórans á Reykjanesi frá því í fyrra og kom fram við meðferð málsins sem hv. þingmaður lagði fram á sínum tíma. Sá lögreglustjóri sagði, með leyfi forseta:

„Reynsla lögreglustjórans á Suðurnesjum er sú að þau viðurlög sem helst hafa áhrif séu ökuleyfissviptingar en ekki sektarfjárhæð og er það ítrekað sem fyrirspurnir berast um hvort unnt sé að greiða sig frá ökuleyfissviptingu.“

Þetta vekur áhuga minn vegna þess að við þurfum líka að íhuga hvers eðlis refsingin er, ekki aðeins að hún sé þung heldur hvaða áhrif hún hefur og hvaða áhrif hún hefur á hegðunina.

Nóg um refsingar í bili. Nú liggur fyrir að það er mikið uppnám meðal lögreglunnar vegna kjaramála og aðbúnaðar og fleiri þátta. Mér finnst mjög mikilvægt að þegar við lítum til áfengisneyslu og aksturs hugsum við ekki einungis um það hvernig við getum kennt afbrotamönnum lexíu heldur líka hvernig við getum styrkt okkar eigin innviði til þess að berjast hvað mest gegn vandamálinu. Það þýðir auðvitað að ef við ætlum að taka þetta mál alvarlega, sem mér sýnist allir hér gera, verðum við að taka málefni lögreglunnar alvarlega og gera henni kleift að sinna störfum sínum sem best.

Það hefur margoft komið fram hérna að þetta er heldur algeng dauðaorsök. Flest banaslys í umferðinni verða af þessum völdum og því mikilvægt að eftirlitið sé í lagi, ekki aðeins hvað gerist í kjölfar eftirlitsins.

Síðast en ekki síst má nefna að gríðarlegur árangur hefur náðst í baráttunni gegn vímuefnaneyslu ungmenna á síðustu 15 árum. Við eigum að líta í þá átt. En þá vil ég nefna í sambandi við áfengi, sem margir telja vera vægt vímuefni en það er það ekki, að það hefur þá hvimleiðu blöndu að draga úr dómgreind, sljóvga miðtaugakerfið verulega og auka sjálfstraust, sem er hræðileg blanda. Ég hef ekki tíma fyrir meira, virðulegi forseti, og lýk því máli mínu.