145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[14:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir ræðuna. Ég er fyllilega sammála því að auðvitað eru þetta nauðsynlegar breytingar sem hér er verið að leggja til; þarna er orðalag sem verður að breyta og hugtakanotkun. Ég er mjög glöð að heyra að hæstv. ráðherra segir hér að hún vilji keyra þessa vinnu áfram og halda áfram til þess að hægt sé að fullgilda samninginn sem hraðast.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í. Nú þegar verið er að fara í orðalagsbreytingar þar sem aðallega er verið að breyta tveimur hugtökum — þar sem talað er um „fatlaða“ er því breytt yfir í „fatlað fólk“, því hugtaki er breytt í ýmsum myndum eftir því hvernig það passar. Ég spyr hvort aldrei hafi komið til greina í þessari vinnu að fara í aðeins dýpri breytingar.

Í umsögn frá rannsóknarsetri í fötlunarfræði er til dæmis bent á að fara hefði mátt í breytingar á skilgreiningum á fötlun og að meðal annars sé í lögum á ýmsum stöðum talað um „fötlun“ samkvæmt læknisfræðilegum skilningi þar sem réttara væri að nota orðið „skerðing“ sem væri meira í anda samnings Sameinuðu þjóðanna. Ég spyr hvort aldrei hafi komið til greina að fara í þessar breytingar samhliða breytingum á hugtakanotkuninni. Ég kemst víst ekki lengra í þessu fyrra slotti mínu hér.